Tobba nýr ritstjóri DV segist vilja dásamlega afþreyingu og harðar fréttir

Þorbjörg Marinósdóttir eða Tobba Marinós hefur verið ráðinn nýr ritstjóri DV. Hún segir í samtali við Lindu Blöndal í þættinum 21, verulegar breytingar verða gerðar á blaðinu og vef þess dv.is.

Eins og flestir vita er Tobba þúsundþjalasmiður en ásamt því að hafa starfað sem blaðamaður á ýmsum miðlum í mörg ár og gefið út nokkrar bækur stofnaði hún fyrirtæki með móður sinni sem framleiðir handgert granóla og þær fengu selt í Bónus. Tobba ræðir frumkvöðlavinnuna en einnig hvernig hún sér fyrir sér ritstjórastarfið. Meira verður um fréttir en líka létt efni.

„Það er gaman að hafa slúðurfréttir svo lengi sem að þær séu sannar. Annars er þetta bara drulla.“, segir Tobba og dregið verði úr „rassablæti“, eins og hún kallar það á vef DV og á síðum blaðsins.

Tobba vann á árum áður á Séð og heyrt: „Ég geri mér alveg grein fyrir því að létt og góð afþreying er alveg dásamleg en klárlega í bland við harðar fréttir og það sem verður mantran mín og vonandi að mitt fólk sé sammála, það sem ég mun keyra mjög stíft á er virðing fyrir viðmælandandanum“.

„Ég sé þetta fyrir mér sem svona helgarkonfektmola, prentútgáfuna. Að þú fáéir gott blað sem að þú getur svona velt fyrir þér yfir helgina yfir kaffibolla og þarna séu upplýsingar og fréttir en það sé líka svona feel good og næs afþreying. Ég er á móti því að það sé alltaf verið að tala niður þessar léttu afþreyingu“, bætir hún við.

Stutt hlé verður gert á útgáfu blaðsins að sinni en vefurinn dv.is áfram virkur.