Tobba hættir sem ritstjóri DV

Tobba Marinósdóttir hefur sagt upp störfum sem ritstjóri DV. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún sendi samstarfsfólki sínu nú skömmu eftir hádegið.

Tobba var ráðin ritstjóri DV þegar kaup Torgs á miðlinum gengu í gegn á síðasta ári. Hefur hún verið ritstjóri DV í að verða eitt ár.

„Það ár er búið að vera ótrúlega skemmtilegt eins og þið hafið líklega heyrt á hlátursköstunum. Ritstjórnarstarfið er krefjandi starf en um leið svo gefandi og ekki síst vegna þess hve mikið af hæfileikaríku og metnaðarfullu starfsfólki starfar hjá DV og hjá Torgi öllu,“ segir hún í bréfi sínu.

Tobba rekur fyrirtæki ásamt móður sinni sem hefur vaxið mikið, að hennar sögn.

„Nú er svo komið að ég get ekki lengur sinnt því aðeins á kvöldin. Ég mun hella mér alfarið út í rekstur á Náttúrulega Gott og Granólabarnum sem opnar vonandi í næsta mánuði,“ segir hún meðal annars.

Þrátt fyrir uppsögnina er Tobba ekki hlaupin á brott og hún verður til staðar næstu vikur. „Nóg spennandi framundan, góð viðtöl og girnilegt páskablað,“ segir hún.

Hringbraut er í eigu Torgs sem gefur meðal annars út DV.