Til hamingju með daginn konur

Í dag er konudagurinn en það er fyrsti dagur fornnorræna mánaðarins góu, sem er sunnudagurinn í átjándu viku vetrar á milli 18. og 24. febrúar. Þann dag minntust bændur og eiginmenn húsfreyjunnar með því að fagna góu, sem færir með sér vaxandi birtu og vorinnganginn og þorrinn er kvaddur.

Við höfum haldið uppá konudaginn í áratugi og er hann einn af þjóðlegum tyllidögum okkar. Sú hefð að menn gefi konum blóm í tilefni konudagsinns virðist hafa hafist um miðjan sjötta áratug síðustu aldar en þá tóku blómasalar að auglýsa konudagsblóm. Skemmtilegt er að geta þess að Þórður á Sæbóli í Kópavogi mun hafa verið upphafsmaður þess en fyrsta blaðaauglýsingin sem hefur fundist frá Félagi garðyrkjubænda og blómaverslana er frá árinu 1957.

Gleðjum konurnar í lífi okkar á konudaginn

Vert er að halda í hefðina og gleðja konurnar í lífi okkar. Hægt er að gera það á margvíslegan hátt, bæði með fallegum gjöfum og upplifunum sem búa til góðar minningar. Til að mynda er fjöldi veitingastaða með ómótstæðileg sælkeratilboð í tilefni konudagsins og bjóða fram sælkeramáltíð í tilefni dagsins. Blómasalar eru í essinu sínu og töfra fram hina fegurstu blómvendi. Bakarar leggja sig fram við að baka sælkera bakkelsi og konudagskökuna sem bráðna í munni og fjölmargar verslanir og gallerí bjóða uppá falleg handverk, hönnunarvörur, vandaðar flíkur og hvaðeina sem hugurinn girnist í tilefni dagsins. Einnig er dásamleg tilfinning að geta komið konunni á óvart með spennandi upplifun, til dæmis heimsókn í næsta sveitarfélag, heimsókn í náttúrulaugar, morgunverð í rúmið, í ljúffengan dögurð, rómantískan kvöldverð heima eða óvissuferð út í náttúruna. Það eru margar leiðir færar til að gleðja og tjá ást sína á einlægan og eftirminnilegan hátt. Hver og einn getur gert það sem sínu nefi og veit best hvað gleður konurnar í sínu lífi.