Þvingaður til að vera með grímu í Kringlunni: Nú hefur hann ákveðið að hætta að borða

Zoran Kokatovic, sem starfað hefur sem rekstrarstjóri kaffihússins Café Roma í Kringlunni, hefur ákveðið að hætta að borða til að mótmæla því að hann sé þvingaður til að vera með grímu í Kringlunni. Stundin greinir frá.

Zoran er með læknisvottorð sem sýnir, svo ekki verður um villst, að hann getur ekki borið grímu af læknisfræðilegum ástæðum. Er hann haldinn taugasjúkdómi sem getur valdið slæmum einkennum við skerta súrefnisinntöku.

DV fjallaði um anga þessa máls í mars síðastliðnum en þá hafði Zoran ákveðið að loka kaffihúsinu. Var Zoran gert að vera með grímu öllum stundum utan hans svæðis inni í Kringlunni, til dæmis þegar hann þurfti að nota salerni verslunarmiðstöðvarinnar eða á göngum hennar.

Zoran sagði við DV að um væri að ræða brot á mannréttindalögum og vísaði í upplýsingar á vefnum COVID.is þar sem fram kemur að þeir sem glíma við heilsufarsleg vandamál og eru með vottorð séu undanþegnir grímuskyldu.

Sigurjón Örn Þórisson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir við Stundina að ekki sé óeðlilegt að setja Zoran skorður þó hann sé með vottorð.

„Mér finnst það ekki. Þessi regla er sett í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Við fylgjum henni eftir með þessum hætti og ef menn geta ekki sinnt störfum sínum þá eru þeir bara í forföllum og verða að fá aðra til að sinna störfum sínum, það er svo einfalt.“

Í frétt Stundarinnar kemur fram að Zoran hafi ítrekað reynt að leita til heilbrigðisráðuneytisins vegna málsins en talað fyrir daufum eyrum þrátt fyrir að Umboðsmaður Alþingis hafi óskað eftir svörum. Zoran hefur ekki borðað síðan 22. apríl síðastliðinn og líður ekki vel.

„Ég held áfram að vera svangur þar til ég fæ svar við bréfum mínum til yfirvalda,“ segir hann.