Helga María helga skrifar

Þversagnir í samfélaginu.

16. mars 2017
17:03
Fréttir & pistlar

Sem hjúkrunarfræðingur þá hugsa ég mikið um forvarnir. Forvarnir nýtum við til að koma í veg fyrir vágesti. Ein af okkar sterkustu forvörnum gegn sjúkdómum og öðrum heilsufarskvillum er hreyfing. Ekki aðeins það að hreyfing stuðlar að heilbrigðum líkama og sál, þá eru þau ungmenni sem stunda reglulega hreyfingu ólíklegri en önnur til að byrja að neyta áfengis og annarra vímuefna.

Á sama tíma og við þekkjum mikilvægi hreyfingar þá eru íþróttir farnar að vera forrettindi fyrir börnin okkar. Ekki er í boði fyrir öll börn að stunda íþróttir af þeirri ástæðu að það er of kostnaðasamt að fá að taka þátt. Það þarf að borga æfingagjöld, fatnað og annan útbúnað, mótsgjöld, akstur og einnig þurfa foreldrar að borga inn á mótin í sumum tilfellum.

Frístundastyrkur Reykjavíkurborgar var 35.000 krónur árið 2015 og kostaði vorönnin það sama ár 38.450 krónur. Í dag er styrkurinn kominn upp í 50.000 krónur og var ég mjög ánægð með þessa breytingu þar til ég sá að æfingagjöldin hjá dóttur minni hækkuðu á móti og kostaði vorönnin í ár 63.146 krónur. Þessi aukni styrkur endaði því hjá íþróttafélaginu og ég enda á að borga hærri æfingagjöld. Gjöldin hafa hækkað um rúmlega 60% á tveimur árum. Ekki má gleyma að þessi styrkur er fyrir allt árið en greiðslan er aðeins fyrir aðra önnina. Ég á því eftir að greiða svipaða upphæð fyrir haustönnina og styrkurinn þá löngu horfin.

En hvernig má það vera að ekki er hægt að gera betur þegar það kemur að heilsu barnanna okkar. Þetta er mjög einfalt. Það þarf að lækka æfingagjöld, bjóða upp á rútuferðir til og frá æfingastaða, láta æfingabúnað vera innifalinn í æfingagjöldum og auðvitað bjóða foreldrum að taka þátt í íþróttahreyfingunni. Ekki heimta pening í hvert skipti sem ég á möguleikann sjá framfarirnar hjá dóttur minni.