Þrjár á­rásir á tveimur dögum: Braut allar rúður og virti ekki reglur um sótt­kví

Lands­réttur stað­festi í síðustu viku gæslu­varð­halds­úr­skurð Héraðs­dóms Norður­lands eystra yfir manni sem er grunaður um fjöl­mörg brot. Lög­reglu­stjórinn á Norður­landi eystra fór fram á gæslu­varð­hald, meðal annars til að vernda sam­fé­lagið fyrir manninum.

Í gæslu­varð­halds­úr­skurði héraðs­dóms frá 16. októ­ber kemur fram að maðurinn sé grunaður um að ráðast á unnustu sína fyrir utan verslunar­mið­stöð þann 13. októ­ber. Er maðurinn meðal annars grunaður um að hafa bitið í eyra hennar auk þess að beita hana öðru of­beldi.

Daginn eftir, þann 14. októ­ber, er maðurinn sagður hafa ráðist að manni en þá hafði honum ný­lega verið sleppt lausum vegna á­rásarinnar á unnustu sína. Er hann sagður hafa brotið allar rúður í húsi brota­þola með grjót­kasti og síðan ráðist á hann, lagt hann í jörðina og keyrt há­talara að hálsi hans svo brota­þoli átti erfitt með andar­drátt.

Sama dag er hann sakaður um að hafa ruðst inn á heimili annars manns, beitt hús­ráðanda þar of­beldi meðal annars með því að þrýsta hné að hálsi hans auk þess sem hann sé sakaður um eigna­spjöll hjá manninum. Þá er maðurinn sakaður um enn eina líkams­á­rásina í sumar, inn­brot, líf­láts­hótun, eigna­spjöll og þjófnað.

Loks er tekið fram að maðurinn, auk unnustu hans, sé sakaður um í­trekuð brot gegn sótt­varnar­lögum.

Lands­réttur felldi úr­skurð sinn þann 21. októ­ber og var hann birtur á vef dóm­stólsins í dag. „Að virtum þeim rann­sóknar­gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn er fyrir hendi rök­studdur grunur um að varnar­aðili hafi í­trekað gerst sekur um hátt­semi sem fangelsis­refsing er lögð við,“ segir í niður­stöðu Lands­réttar.

Gæslu­varð­halds­úr­skurðurinn yfir manninum rennur út þann 12. nóvember næst­komandi.