Þrettán ára þegar faðir hennar fór í fangelsi: „Ég frétti af dómnum hans pabba í há­­degis­fréttum í út­­varpinu“

Ás­­dís Birna Bjarka­dóttir var þrettán ára gömul þegar faðir hennar fór í fangelsi á Litla Hrauni. Hún segir að stuðningur á þeim tíma hafi verið af skornum skammti og upp­­­lýsinga­­flæði lítið sem ekkert. Upp­­lifunin hafi haft skemmandi á­hrif á æsku hennar.

Þetta kemur fram í við­tali Frétta­blaðsins við Ás­dísi en hún segir að fyrir­komu­lagið er kemur að börnum fanga sé klikkað og krefst breytinga. Ás­dís hitti ekki föður sinn í fimm ár.

„Ég hef bara aldrei hugsað út í þetta fyrr en núna, eftir að þessi gögn birtast, hvað þetta fyrir­­komu­lag er klikkað og hvað vantaði margt uppá,“ segir Ás­­dís Birna Bjarka­dóttir, sál­­fræði­­nemi og upp­­komið barn fyrr­verandi fanga, um réttindi og stöðu barna sem eiga for­eldra í fangelsum.

Í vikunni birti Um­­­boðs­­maður barna niður­­­stöður tveggja rann­­sóknar­­verk­efna sem taka á réttindum barna sem eiga for­eldra í fangelsum. Þar kemur fram að Ís­land er til­­­tölu­­lega aftar­­lega á merinni miðað við ná­granna­lönd þegar kemur að réttindum barna fanga. Lítil sem engin um­­fjöllun hefur verið um börn fanga og hags­munum þeirra og réttindum lítill gaumur gefinn.

Þá er ekki vitað hversu mörg þau eru í heildina þar sem upp­­­lýsingum um þau er ekki safnað. Engir barna­full­­trúar eru í fangelsunum og heim­­sóknar­að­­staða fyrir börn er víða nötur­­leg.

Spurð segist Ás­­dís fagna því að mál­efni barna fanga séu í skoðun, en hún var þrettán ára þegar faðir hennar fór inn á Litla-Hraun.

„Maður var alltaf eitt stórt spurningar­­merki því það var aldrei neitt út­­skýrt fyrir mér. Ég er náttúru­­lega bara barn á þessum tíma og það var verið að reyna að skýla mér, en ég frétti af dómnum hans pabba í há­­degis­fréttum í út­­varpinu,“ segir Ás­­dís.

Þá hafi upp­­­lýsinga­­flæðið verið í lág­­marki og enginn stuðnings­hópur í boði fyrir börn í hennar stöðu.

„Ég tengdi ekki við neinn þar sem það var enginn í kringum mig sem vissi hvað ég var að ganga í gegnum. Maður var bara svo­lítið „on your own“ og ég fann að allir voru að pískra um þetta í kringum mig. Og ef ég nefndi þetta við nánustu vin­­konur - þetta var svo ó­­­trú­­lega mikið úr myndinni fyrir þeim. Hvernig áttu þær að geta skilið hvað ég var að tala um eða ganga í gegnum?“, spyr Ás­­dís.

Hitti föður sinn ekki í fimm ár
Faðir Ás­­dísar sat í fangelsi frá 2010 til 2015, en á meðan á fangelsis­vist hans stóð hittust þau ekkert.

„Ég fór aldrei og heim­­sótti hann af því honum fannst heim­­sóknar­­rýmið ekki nægi­­lega gott. Hann vildi ekki að ég kæmi inn í þessar að­­stæður,“ segir Ás­­dís. Við­skilnaðurinn hafi haft djúp­­stæð á­hrif á hana.

„Mér fannst þetta svo­­lítil höfnun þar sem við vorum alveg í miklu sam­­skiptum áður en hann fer inn. Við höfum samt sam­band í gegnum tölvu og ég fékk að sjá myndir af honum. En sam­bandið dofnaði alveg þessi ár sem hann sat inni,“ segir Ás­­dís.

Hægt er að lesa við­talið í heild sinnihér.