„Þótt fólk verði sjötugt þýðir ekki að heilastarfsemi þess stöðvist“

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, segir það sóun á mannauði að atvinnuþátttaka eldri borgara sé skert og þau þvinguð til að láta af störfum.

Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Kolbrún að flokkur hennar berjist fyrir rétti og frelsi fólks til að vinna eins lengi og það vill.

„Staða eldri borgara á vinnumarkaði er ekki sem skyldi. Helsta meinið er að þeir eiga ekki auðvelt með að halda vinnunni. Þeir fá laun frá samfélaginu en kerfið er þannig að ef þeir sem komnir eru á eftirlaunaaldur vilja auka tekjur sínar með vinnu þá skerðir það þessi eftirlaun. Þetta er hin alþekkta „króna á móti krónu skerðing“,“ segir Kolbrún og spyr af hverju kerfið þurfi að vera svona.

„Hvers vegna má fólk sem „komið er á ákveðinn aldur“ ekki afla sér tekna og borga af þeim skatta eins og aðrir, hafi það á annað borð vilja og getu til og eftirspurn sé eftir kröftum þeirra? Þessi skerðing er ekki hagstæð fyrir samfélagið. Hún sviptir fólk mannréttindum sem er frelsi til sjálfsbjargar og athafna. Fólk fær ekki að leggja sitt til samfélagsins vilji það gera það. Því er meinuð sú andlega og líkamlega heilsubót sem getur falist í því að vera áfram þátttakandi á vinnumarkaði. Óþarfa sóun á mannauði á sér stað,“ segir Kolbrún.

Hún segir að með því séu íbúar með bæði mikla reynslu og þekkingu dæmdir úr leik og að þetta fyrirkomulag stangist á við það sem þekkist í mörgum okkar nágrannalöndum en þar hafi fólk víða rétt til að vinna eins lengi og það vill. Hún segir að það þurfi að endurskoða þessar reglur.

„Þótt fólk verði sjötugt þýðir ekki að heilastarfsemi þess stöðvist. Í dag er fólk um 70 ára aldur við betri heilsu en fyrir áratugum. Aldrað fólk býr yfir umtalsverðum kostum, menntun og reynslu sem gerir það að góðum starfsmönnum,“ segir Kolbrún.

Hún segir að flokkur hennar hafi lengi barist fyrir því að aldraðir séu þvingaðir til að láta að störfum, bæði á þingi og í borgarstjórn.

Greinina er hægt að lesa í Morgunblaðinu í dag í heild sinni.

Fleiri fréttir