Þorvaldur við það að gefast upp á Sjálfstæðisflokknum: „Hvað er fólk að drekka þarna í borginni?“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Circle Air og flokksbundinn Sjálfstæðismaður frá 15 ára aldri, segist vera langþreyttur Sjálfstæðismaður.

Þorvaldur Lúðvík, sem hefur víða komið við í atvinnulífinu og meðal annars gegnt starfi framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og starfi forstjóra Saga Fjárfestingarbanka, segist að líkindum vera í þeim armi sem er langþreyttastur en þa eru Sjálfstæðismenn utan höfuðborgarsvæðisins.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Þorvaldar sem birtist á vefnum Akureyri.net í gær.

Klúðra tækifærunum

„Nú þykir öllum vænt um sitt nánasta umhverfi og þykir eðlilegt að þeir og þeirra slekt búi við sjálfsögð lífsþægindi eins og heilsugæslu, aðgengi að menntun, góðar samgöngur (þar með talin ferðalög til útlanda) og almenn góð rekstrarskilyrði til uppbyggingar atvinnustarfsemi og sköpun starfa, óháð búsetu. Það er því með trega og tárum sem ég fylgist þessa dagana með þremur ráðherrum Sjálfstæðisflokksins klúðra illilega tækifærum til að koma sér upp úr sjálfmiðuðu kjördæmapoti og efnahagslegri skammsýni,“ segir hann.

Þorvaldur bætir við að í stað þess að hugsa um landið allt til lengri tíma sé hið rétta andlit afhjúpað. Nefnir Þorvaldur nokkur dæmi máli sínu til stuðnings.

Hjólar fyrst í Bjarna

„Í fyrsta lagi fór Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, fyrir gröfuflokki til að hefja viðbyggingu við Leifsstöð sem kosta mun ríflega 20 milljarða. Áður hefur Bjarni lýst því yfir að hann hafi ekkert með Isavia að gera og verði að gæta armslengdarsjónarmiða. Hann hafi í reynd ekkert með stefnu eða ákvarðanir þessa opinbera hlutafélags að gera.“

Segir Þorvaldur að Bjarni hafi þó verið í forsvari skattgreiðenda að gauka að þeim 15 milljarða eiginfjárinnspýtingu úr vösum þeirra. Á sama tíma hafi varavellir Keflavíkur, á Akureyri og Egilsstöðum, vælt um 3-5 milljarða á undangengnum árum með litlum árangri.

„Þetta er ekki grín“

Þorvaldur Lúðvík snýr sér svo að Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Þannig hafi Þórdís Kolbrún kynnt svokallaðar Vörður í íslenskri ferðaþjónustu sem eiga að stuðla að því að markaðssetja Íslands. Einn er þó hængur á, að mati Þorvaldar.

„Vörðurnar, sem samráðslítið voru ákvarðaðar af ráðuneyti Kolbrúnar, eru Þingvellir, Gullfoss, Geysir og Jökulsárlón. Þetta er ekki grín .Dynjandi, Snæfellsjökull, Mývatn, Dettifoss, Stuðlagil ... ? Á að fara af stað með markaðssetningu Íslands alls út úr kófinu með þessu? Að stappa aftur öllum ferðamönnunum á sömu staðina í eina kös? Það er ekki það sem talað hefur verið um.“

Vantar framtíðarsýn og hyggjuvit

Þorvaldur gagnrýnir Áslaugu Örnu fyrir að tilkynna um tafarlausa viðbyggingu á flugskýli Landhelgisgæslunnar í Vatnsmýrinni, rétt fyrir prófkjör flokksins í Reykjavík.

„Hvaða framtíðarsýn eða hyggjuvit getur varið það að hafa allt bráðaviðbragð landsmanna samankomið á sama bletti á vesturannesi landsins, þvert gegn ráðleggingum sérfræðinga og vilja Gæslunnar? Eðlilegast er að staðsetja þyrlu þar sem líklegast er að hún komi að sem bestum notum í bráðaviðbragði. Það þýðir ekki allar þyrlur á sama bletti, svona ef þið voruð í vafa.“

Bendir Þorvaldur á að sjómenn skipi fyrir vestan, austan og norðan land, auk íbúa og ferðamanna á þeim svæðum, sem verða bara að gera sér að góðu að bíða lengur eftir því að þyrlan komist yfir hálendið úr Reykjavík. „Hvað er fólk að drekka þarna í borginni!?“

Blaut tuska í andlitið

Þorvaldur segir að í þessum dæmum séu það ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem virða að vettugi landsfundarsamþykktir flokksins, ráðleggingar innlendra og erlendra sérfræðinga, stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og almennt hagsmuni alls landsins.

„Ég studdi nýverið góða fulltrúa í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi. Mér finnst þessi framganga ráðherranna vera blaut tuska í andlit alls þess góða Sjálfstæðisfólks sem vill verja kröftum sínum í að starfa samkvæmt Sjálfstæðisstefnunni um land allt og hefur trúað á efndir. Sé það vilji forystu Sjálfstæðisflokksins að sækja einungis fylgi sitt til kjósenda á höfuðborgarsvæðinu, þá er hreinlegra að segja það berum orðum. Landlausir Sjálfstæðismenn utan þess svæðis neyðast þá til að greiða öðrum flokki sem hefur alvöru byggðastefnu að leiðarljósi atkvæði sitt, skila auðu á kjörstað eða finna sér annan farveg.“