Þorsteinn biður sjúklingana afsökunar: Dvaldi 40 tíma í gluggalausu sjúkrarými með tíu öðrum

Þorsteinn Jónsson, sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun, segir að heilbrigðisstarfsfólk sé að sligast undan álaginu og biður hann þá sjúklinga afsökunar sem hafa þurft að finna fyrir því. Þorsteinn nefnir dæmi máli sínu til stuðnings í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Þorsteinn starfar sem hjúkrunarfræðingur á Landspítala og hefur hann starfað ýmist á bráðamóttöku- eða gjörgæsludeild yfir um 20 ára skeið.

„Að undanförnu hefur ástand Landspítala verið áberandi í fréttum og er sú umræða því miður síst orðum aukin. Vakt eftir vakt er það mín tilfinning að ég nái ekki að sinna starfi mínu vel. Og nú er svo komið að mér líður þannig að mér finnst ég þurfa að biðja þá sjúklinga sem ég annast afsökunar á því að geta ekki veitt þeim nauðsynlega og mannsæmandi hjúkrun,“ segir Þorsteinn meðal annars í grein sinni. Hann nefnir svo nokkur dæmi:

„Mig langar að biðja aldraðan einstakling með slæma kviðverki afsökunar á að hafa ekki getað verkjastillt hann almennilega, vegna þess að samtímis kom inn sjúklingur með brjóstverk sem þurfti tafarlausa aðstoð. Mig langar að biðja alla þá sjúklinga afsökunar sem ég hef þurft að aðstoða við að afklæðast á gangi deildarinnar, vegna þess að ekkert rúmstæði var laust fyrir viðkomandi. Mig langar að biðja aldraðan, illa áttaðan sjúkling afsökunar á því að hann þurfti að dvelja rúmlega 40 klukkustundir í gluggalausu sjúkrarými með 10 öðrum einstaklingum á bráðamóttökunni, sökum þess að ekkert annað pláss var laust á legudeildum spítalans. Mig langar að biðja sjúklinginn með háa hitann afsökunar á því að hafa ekki haft tök á því að meta ástand hans eins ítrekað og þurfti, vegna þess að aðrir fárveikir og slasaðir sjúklingar í minni umsjón þurftu á athygli og tíma mínum að halda. Mig langar að biðja aðstandendur sjúklinga sem ég hef verið að annast afsökunar á að hafa ekki haft tíma í að sinna þeim eins vel og þeir þurftu, oft á verstu og viðkvæmustu stundum lífs þeirra. Ég get því miður haldið lengi áfram,“ segir hann.

Þorsteinn segir í grein sinni að búið sé að setja heilbrigðisstarfsfólk í vonlausa stöðu og við látin bera of þungar byrðar. Starfsfólk sé hreinlega að sligast undan álaginu og kerfið sömuleiðis.

„Stjórnvöld verða að axla sína ábyrgð og það ætti að vera þeirra að biðjast afsökunar á stöðunni og fyrir að hafa flotið sofandi að feigðarósi. Það átta sig allir á, sem að málinu koma, að við þessar aðstæður er öryggi sjúklinga á Landspítala ógnað. Það er ekki hægt að segja það skýrar. Eftir hverja vakt geng ég út, andlega úrvinda og líkamlega uppgefinn – með það efst í huga hvort eitthvað hafi farið fram hjá mér eða ég misst einhverja bolta, og ég þakka fyrir að ekki hafi orðið stórslys, því geta bráðadeildar til að takast á við slíkt undir þessum aðstæðum er afar takmörkuð, svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ segir hann meðal annars.

Hann segir að bregðast urfi við án tafar, ekki með fleiri skýrslum eða nefndum og ekki með því að skýla sér á bak við hugsanleg ráðherraskipti.

„Ríkisstjórnin þarf að gera upp við sig hvernig Landspítala við sem þjóð viljum eiga. Viljum við fjársveltan spítala sem getur ekki sinnt hlutverki sínu, þar sem ástandið minnir meira á sjúkrastofnun í stríðshrjáðu landi? Eða viljum við vera stolt af þjóðarsjúkrahúsinu okkar, þar sem mannleg reisn og öryggi sjúklinga er tryggt? Þá þarf að grípa til aðgerða strax.“