Þorsteinn bendir á Dani og segir fyrirkomulag sóttvarna vart réttlætanlegar: „Við höfum þrengt að flestum þeim réttindum sem við teljum sjálfsögð“

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins og fyrrverandi ráðherra, segir núverandi fyrirkomulag sóttvarna varla réttlætanlegt í ljósi þess að faraldurinn hefur staðið yfir í tvö ár Þingið verði að taka málin í sínar hendur.

Þorsteinn sem er fyrrverandi félagsmálaráðherra og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifar pistil um sóttvarnir á Facebooksíðu sinni.

„Faraldurinn hefur staðið yfir í nær tvö ár. Hér er ekki lengur um neyðarviðbrögð að ræða sem ekki leyfa aðkomu þings eða lýðræðislegrar umræðu. Það getur ekki talist ásættanlegt lengur að slíkar ráðstafanir sé ekki ræddar og rökstuddar á opinberum vettvangi áður en ákvörðun um þær er tekin,“ skrifar Þorsteinn.

Að sögn Þorsteins er orðið löngu tímabært að færa þinginu veigameira hlutverk í mótun stefnunnar út úr víðtækum samfélagstakmörkunum en nú sé raunin.

„Við höfum þrengt að flestum þeim réttindum sem við teljum sjálfsögð. Vel má vera að svo þurfi að gera áfram en þá lágmarkskröfu hlýtur að mega gera að slíkar takmarkanir fái lýðræðislega umræðu. Að rík krafa sé gerð til rökstuðnings um nauðsyn slíkra ráðstafana,“ skrifar Þorsteinnn sem kveður óbreytta stefnu eða enn harðari aðgerðir nú vafalítið mun hafa miklar efnahagslegar afleiðingar.

„Starfsemi fyrirtækja er þegar farin að skerðast, ekki vegna langvarandi veikinda starfsfólks heldur vegna langvarandi einangrunar og sóttkvíar. Það er því löngu tímabært að opna umræðuna um það hver stefna okkar á að vera í þessum málum upp og færa ákvarðanir um hana í hendur þingsins,“ segir ráðherrann fyrrverandi í Facebookpistli sínum.

Þorsteinn segir að grundvallarbreyting hafi orðið á stefnu stjórnvalda víða enda bendi flest til að Omikron afbrigðið sé mun vægara varðandi hættu á alvarlegum veikindum og á endanum líkast til besta leiðin að hjarðónæmi.

„Danir boða tilslakanir. Stefnt er að opnun leikhúsa og menningarviðburða á nýjan leik. Staðan þar virðist þó keimlík stöðunni hér. Smittíðni er nánast hin sama sem og innlagnir á spítala vegna kóvid eru þar heldur fleiri miðað við höfðatölu. Umfang bólusetninga er hið sama í dönsku samfélagi og hér, sem og sá fjöldi sem fengið hefur örvunarsprautur. Ísland og Danmörk eru þar bæði í fremstu röð á heimsvísu,“ ber Þorsteinn saman stöðu mála á Íslandi og í Danmörku.

„Reginmunur er þó á því hvernig Danir taka ákvarðanir um aðgerðir í samanburði við okkur,“ skrifar Þorsteinn. „Þar er það sérstök ráðgjafarnefnd danska þingsins sem gerir tillögur um aðgerðir hverju sinni. Aðgerðirnar fá því talsvert aðra og lýðræðislegri umræðu þar en hér. Það er til fyrirmyndar enda ljóst að svo víðtæk og langvarandi inngrip í frelsi og líf borgaranna hljóta að kalla á reglulega aðkomu löggjafans að þeim ráðstöfnum sem grípa á til.“