Þórlaug vaknaði í miðri skurðaðgerð alveg lömuð: Brotnaði saman í viðtalinu - „Hann vissi að hann væri búinn að drepa mig“

Þórlaug var 37 ára, hamingjusamlega gift, tveggja barna móðir, í háskólanámi í Kaupmannahöfn þegar hún greindist með krabbamein. Stuttu síðar var hún fráskilin og dauðvona. Vestræna heilbrigðiskerfið brást hrapalega en hún segir lækna að handan hafa bjargað lífi sínu.  Læknar tala um kraftaverk enda hefur enginn getað útskýrt hvernig Þórlaug læknaðist. Þórlaug er gestur Ásdísar Olsen í þættinum Undir yfirborðið.

Frásögn Þórlaugar er einstök og lærdómsrík en saga hennar varpar líka ljósi á það sem er hulið og jafnvel ekki viðurkennt og samþykkt af heilbrigðisstofnunum og læknum. Við heimsóttum Þórlaugu í eina af hæstu blokkum landsins, í Sólheimunum þar sem hún býr ásamt syni sínum og með útsýni svo langt sem augað eygir. Hún hefur nýlega skilað meistararitgerð í alþjóðastjórnmálum (Cyber Security) og segist njóta lífsins betur nú en nokkru sinnum fyrr.

Þórlaug er stjórnmálafræðingur og hefur starfað lengi í vefgeiranum og hafði fram að veikindum unnið um allan heim. Hún var yfirmaður vefmála hjá Össuri og 365 miðlum fyrir hrun, svo dæmi sé tekið. Þá var Þórlaug í Pírötum og bað sig fram í sveitastjórnarkosningum. Fyrir veikindi hefði mátt segja að Þórlaug væri ofurkona, það er hún enn þá en einnig gangandi kraftaverk.

Í þættinum segir Þórlaug okkur sögu sína, sem er vægast sagt átakanleg.  Hún rifjar upp þá skelfingu að vakna upp í miðri skurðaðgerð með hulu fyrir augum og geta ekki gefið nein merki um ástand sitt.

Hún lýsir líka sárum vanmætti sínum þegar hún hafði misst stöðu sína, hlutverk, maka, styrk og sjálfsvirðingu og finnst enginn taka mark á sér. Tilfinningarnar flæða og tárin streyma. Um viðtalið sjálft segir þáttastjórnandinn Ásdís Olsen: 

„Og ég sem hef aðeins það hlutverk að hlusta fallega, fæ að upplifa meiri tilfinningar en ég kæri mig um. Þess ber því að geta að allir lifðu þetta viðtal af og Þórlaug segist jafnvel betri en áður, eftir að hafa varpað ljósi á djúpa skugga í sálinni.“ 

Í þættinum greinir Þórlaug frá því hvernig læknar gerðu hver mistökin á fætur öðrum og heilsu hennar hrakaði jafnt og þétt. Loks kom í ljós eins og Þórlaugu grunaði, hún var með krabbamein sem hafði dreift sér um líkamann og þá var hún með stærðar æxli. Á meðan læknar neituðu að athuga hvort hún væri með krabbamein leið Þórlaug vítiskvalir. Loks var tekin prufa og hún skoðuð nánar. Samkvæmt niðurstöðu átti hún 6-12 vikur ólifaðar. Læknirinn, sem hafði áður neitað að taka prufu gat vart horft framan í Þórlaugu sem nú var dauðvona.

„Hann vissi að hann væri búinn að drepa mig,“ segir Þórlaug og bætir við:

„Ég er sorgmædd og ég er reið vegna þess hvernig þeir fóru með mig. Í framhaldinu upplifði ég ólýsanlegan sársauka og ef ég ætti óvini myndi ég ekki óska þeim að ganga í gegnum þetta [...] Þú hafðir rétt fyrir þér. Ég hef aldrei séð skömmustulegri mann. Hann vissi að hann væri búinn að drepa mig. Hann vissi að líkurnar mínar væru nánast engar.“

Þá var Þórlaug sett í aðgerð og í miðri aðgerð vaknaði hún. Lýsir Þórlaug því eins og að vera kviksett. Í  þættinum er mjög tilfinningaþrungin lýsing á því þegar Þórlaug vaknar. Hún var algjörlega lömuð og gat ekki gefið merki um að hún væri vakandi. Hún heyrði læknanna ræða saman og ganga um herbergið. Hún sá ekkert þar sem hún var með grímu fyrir andlitinu.

En síðan gerðist kraftaverk. Þórlaug fór óhefðbundna leið til að ná bata sem átti ekki að vera mögulegt. Þórlaug sem var í líknandi meðferð kveðst hafa fengið lækningu að handan en því lýsir hún nánar í þættinum sem sýndur er í kvöld.

Þá höfðu veikindin og hvert áfallið á fætur öðru djúpstæð áhrif á sálarlíf Þórlaugar og allra hennar nánustu og lifði samband Þórlaugar og hennar fyrrverandi ekki eftirköstin af.  Í viðtalinu er ekki að greina neina gremju af hennar hálfu. Um það segir Þórlaug:

„Hann fékk áfall líka. Börnin fá áfall. Það fá allir áfall.“

Í dag nýtur þessi kraftaverkakona lífsins og lífsfyllingin er mun meiri en áður en þegar hún var aftengd í lífsgæðakapphlaupinu sem svo margir eru fastir í. Saga Þórlaugar er mikilvæg og dýrmæt og ætti enginn að láta viðtalið sem sýnt er í kvöld á Sjónvarpsstöðinni Hringbraut fram hjá sér fara.

Undir yfirborðið: Þátturinn er sýndur á sjónvarpsstöðinni Hringbraut kl: 20:00