Þorláksmessumálið breytir engu nema til að auka á tap Vinstri grænna

Upphlaupsmál jólanna í íslenskum stjórnmálum mun engu breyta um framvindu á stjórnmálasviðinu hér á landi nema ef vera skyldi að auka fylgistap Vinstri grænna.

Heimsókn Bjarna Benediktssonar í Ásmundarsal á Þorláksmessu varð til þess að margir héldu að nú hefði gefist tækifæri til að klekkja á Sjálfstæðisflokknum og formanni hans sem hefur staðist mun stærri raunir en alla þvæluna vegna þessa máls. Fram hefur komið að Ásmundarsalur hafði heimild til að taka á móti 60 manns þannig að reglur um fjöldatakmarkanir voru ekki brotnar en talið er að á milli 40 og 50 gestir hafi verið í húsinu þegar mest var. Ljóst er að grímuskylda var ekki virt sem skyldi. Erfitt er að ásaka formann Sjálfstæðisflokksins fyrir brot á reglum vegna þessa eins og reynt hefur verið.

Í fjölmiðlum hefur minna farið fyrir gagnrýni á brot tveggja ráðherra Vinstri grænna á sóttvarnarreglum en Katrín Jakobsdóttir faðmaði og kyssti fólk á Seyðisfirði fyrir jólin en slíkt er harðbannað. Katrín var sýnd í fréttum sjónvarpsstöðvanna þannig að það fer ekkert milli mála. Því er ekkert gert með þetta skýlausa brot? Þá voru allar fjöldatakmarkanir brotnar þegar kassarnir með bóluefnunum birtust í vöruskemmu Districta og Svandís Svavarsdóttir stóð þar fremst í flokki þeirra sem brutu fjöldatakmarkanir og sóttvarnarreglur. Það virtist ekki trufla alla sjálfskipuðu álitsgjafana frekar en brot Katrínar á Seyðifirði.

Það vakti athygli við komu bóluefnisins að Svandís var þá komin á stjá að nýju eftir að Katrín Jakobsdóttir hafði tekið bóluefnamálið úr hennar höndum. Svandísi var þá leyft að ávarpa þjóðina eins og hún hefði unnið einhver afrek en hún hafði þvert á móti klúðrað ferlinu þannig að nú er verið að bólusetja fimm þúsund manns í stað tugþúsunda sem verið hefði ef fagfólki hefði verið hleypt að innkaupaferlinu á réttum tíma.

Þessar staðreyndir breyttu ekki því að Svandís setti sig á stall og ávarpaði þjóðina álíka hátíðlega og Jóhann Hafstein forsætisráðherra gerða við komu handritanna til landsins árið 1970 þegar hann beindi máli sínu að dönsku dátunum sem báru handritin í land á hafnarbakkanum í Reykjavík. Þá sagði forsætisráðherra við dátana: “Stígið heilir á storð, landvættir munu fagna yður.”

Ýmsir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gerðu mikil hróp að formanni flokksins í kjölfar heimsóknarinnar í Ásmundarsal. En nú er komið á daginn að högg þeirra voru vindhögg. Fáir sem eru teknir alvarlega í þjóðfélagsumræðunmni tóku til máls, einungis þeir sem ávallt tefla sér fram sem sjálfskipaðir álitsgjafar og siðapostular. Meðal þeirra sem tóku til máls og felldu dóma voru:

Sóley Tómasdóttir, Þór Sarii, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Styrmir Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Gunnar Smári Egilsson, Ólína Þorvarðardóttir og nokkrir úr ungliðahreyfingum sumra flokkanna. Yfirleitt er ekki gert mikið með dóma þessa fólks. En formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, var manna fyrstur til að tjá sig á aðfangadag og hefði betur talið upp að tíu fyrst. Logi er smám saman að mála flokk sinn út í horn í íslenskum stjórnmálum og bætti aðeins við það ástand nú um jólin.

Vitað er að almennir flokksmenn Vinstri grænna vildu að Katrín nýtti þetta meinta tækifæri til að slíta stjórnarsamstarfinu því fylgi VG fellur jafnt og þétt. En hún þorði ekki að hreyfa sig. Hún nýtur athyglinnar í botn og ætlar að nota hvern dag í forsætisráðuneytinu til að njóta sín þó svo fylgið fjari hratt út. Bakland VG mun refsa í kosningunum.

Kaldhæðni örlaganna mun trúlega leiða til þess að Þorláksmessumálið mun ekki skaða Bjarna Benediktsson og flokk hans - heldur Vinstri græna og Katrínu sem braut sóttvarnarreglur á Seyðisfirði beint fyrir framan suðandi sjónvarpsmyndavélar.