Þórir læknir svarar Bubba: „Spítalinn var smekkpakkaður fyrir þessa bylgju“

Þórir Bergsson, sérnámslæknir í bráðalækningum á Landspítalanum, tæklar spurningu Bubba Morthens. Bubbi sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í dag þar sem hann fordæmir samkomutakmarkanir. „Það dynur á okkur áróður og dauðageigurinn er útum allt. Hægt og rólega er frelsið tekið frá okkur í skömmtum og við erum svo vön því að við verjum það og hjólum í þá sem benda á það. Áhyggjur eru eðlilegar en ef frelsissvipting er varin með því að spítali geti ekki tekið við fólki þegar fjórir eru á gjörgæslu og 17 inniliggjandi þá er það óásættanlegt,“ sagði Bubbi.

Þórir segir í færslu á Facebook að það sé skiljanlegt að fólk bregðist illa við samkomutakmörkunum og segir gagnrýni Bubba mjög áhugaverða.

„Málið er nefnilega að það eru ekki bara 4 á gjörgæslu og ekki bara 18 manns inniliggjandi. Spítalinn var smekkpakkaður fyrir þessa bylgju og við vorum komnir í 30-40 manns á BMT sem biðu eftir innlögn á hverjum degi,“ segir Þórir. „Spítalinn semsagt með rúmanýtingu vel yfir 100%. Ástandið á gjörgæslunni er almennt sveiflukenndara og oftast bærilegt, en það þarf lítið til að vagga þeim báti; við erum með, hvað 14 gjörgæslupláss á LSH og því töluvert hlutfall þeirra sem hverfur ef 4 leggjast inn.“

Þórir segir að hann eigi erfitt með að skilja hvers vegna þessum pól sé ekki beint að okkar æðstu yfirmönnum oftar og af meiri skerpu. „Hvers vegna má það vera að hægt sé að setja samfélagi okkar á hliðina í að verða tvö ár, en ekki hægt að bæta ástandið á spítalanum? Hver er kostnaður þessara aðgerða miðað við það að setjast aftur að samningaborði við hjúkrunarfræðinga og bæta vilja þeirra til að vinna? Væri þá hægt að reisa frekari hjúkrunarrými? Væri þá hægt að fá mannskap til að sinna fólki lengur í heimahúsi?,“ spyr hann.

Settir hafi verið upp vinnuhópar og niðurstöðurnar hafi allt verið að fjármagn vantaði. „...en samt vantar ekkert fjármagn í heilbrigðiskerfið...,“ segir Þórir.

„Sennilega myndum við aldrei sleppa við einhverjar takmarkanir, en væri mögulega hægt að finna eitthvað jafnvægi á þeim ef heilbrigðiskerfið væri ekki ein rjúkandi rúst?“

Þórir segir að honum sé slétt sama þó vandamálið sé flókið eða víðar í heiminum.

„ Slík svör eru ekki tilraun til úrlausna heldur til þess að slá málinu frá sér og troða höfðinu í sandkassann. Af hverju getur ekki 360þús manna smáþjóð verið fremst á meðal jafningja þegar kemur að sterku og góðu heilbrigðiskerfi? Hefur umræða síðastliðinna ára ekki kristallað í augum stjórnmálamanna að slíkur sé vilji þjóðarinnar?“

Hann beinir svo orðum sínum til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

„Nú lofuðu sjálfstæðismenn því að taka burtu biðlista í heilbrigðiskerfinu. Er ekki bið eftir innlögn á spítala vegna bráðs sjúkdóms partur af því? Ég segi því yfir til þín, Bjarni.“