Þóri brugðið þegar hann sá látna sam­starfs­konu

23. október 2020
10:33
Fréttir & pistlar

„Ég man hvað mér brá að sjá fram­liðna sam­starfs­konu í hennar kistu. Í lifanda lífi var hún mjög grönn, næstum kinn­fiska­sogin, og dá­lítið hrukk­ótt. Nú var and­litið slétt og kinnar búldu­leitar og rjóðar. Konan hafði ekki litið svona vel út í ára­tugi.“

Þetta segir Þórir S. Grön­dal, fyrr­verandi fiskali og ræðis­maður í Ameríku, í at­hyglis­verðri grein sem birtist í Morgun­blaðinu í gær. Þar skrifaði Þórir um muninn á því að deyja á Ís­landi og í Banda­ríkjunum. Þórir hefur lengi verið bú­settur vestan hafs en í grein sinni segir hann að trú­lega sé hvergi betra að verða gamall og deyja en á Ís­landi.

„Ég hefi séð í fréttum að sam­tök aldraðra kvarta sí­fellt yfir lé­legum kjörum síns fólks og ætla ég ekki að blanda mér í þau mál. Og þá tek ég ekki mark á þruglinu í þing­mönnunum um aldurs­for­dóma. Ég þekki náttúr­lega ekki til þessara mála í allt of mörgum löndum, en held samt að erfitt sé að finna önnur þjóð­fé­lög en hið ís­lenska sem gera hin gullnu ár þegna sinna eins þægi­leg og eðli­leg og hægt er og kveðja þá síðan með virðingu eftir lífs­hlaupið.“

Þórir bendir meðal annars á að þekktir borgarar fái frétt um and­látið í Mogganum, flestir láti sér þó nægja dánar­til­kynningu í blaðinu frá ættingjum. „Svo kemur jarðar­förin og þá birtast minningar­greinarnar. Mogginn inn­heimtir ekki peninga fyrir þær en tak­markar þó lengd þeirra. Oft á tíðum, þegar margir hafa fallið frá, fylla þær margar blað­síður. Þegar jarðar­förinni er lokið setja að­stand­endur þakkartil­kynningu í blaðið og þar með lýkur ferlinu. Bara sorgin og söknuðurinn eftir.“

Þórir segir að það vanti mikið upp á að dánar­menningin í Banda­ríkjunum sé eins þróuð og virðu­leg og hún er á Ís­landi.

„Þetta gildir a.m.k. þar sem ég bý, í Georgíu. Ég les dag­lega aðal­dag­blaðið í At­lanta. Þar slá þeir saman dánar­til­kynningum og minningar­greinum undir yfir­skriftinni „Obitu­aries“, sem orða­bókin út­leggur and­lát­s­pistlar. Hér kennir ýmissa grasa og suma daga fyllast tvær til þrjár blað­síður. Það verður að borga fyrir hvert orð og langar greinar geta kostað hundruð dollara. Margir birta að­eins til­kynningu um látið og þá eru notuð eins fá orð og hægt er.“

Þórir segir að al­gengt sé að hinn fram­liðni sé kvaddur af vinum og vanda­mönnum. „Þá er aug­lýstur tími sem fólk getur komið á jarðar­fara­stofnun og þar stendur uppi opin lík­kistan með hinn látna til sýnis. Út­farar­stjórarnir eru búnir að snyrta og snurfusa líkið og klæða það í spari­fötin,“ segir Þórir sem talar svo um sam­starfs­konuna sem vísað er til hér fremst í greininni.

Þórir nefnir fleiri dæmi.

„Fyrir all­löngu heyrði ég um eftir­launa­manninn Joe, sem bjó í Brook­lyn í New York. Hann langaði mikið til að þau hjónin skryppu í frí til Flórída en efnin leyfðu það ekki. Hann sí­fraði stöðugt í Mörtu konu sinni og á endanum varð úr að hann skryppi bara einn í tvær vikur til Miami Beach. Svo sorg­lega vildi til að í lok ferðarinnar fékk hann slag og dó. Og nú lá hann í kistunni á út­farar­heimilinu og vinir og ættingjar voru þar til að kveðja hann. Þrátt fyrir sorgina var Marta enn hálf­fúl yfir því að hann skyldi hafa farið til Flórída. Einn vina hans stóð við kistuna og sagði við Mörtu: „Skelfing lítur Joe vel út, brúnn og sæl­legur.“ Hún svaraði stuttara­lega: „Þó nú væri. Hann er búinn að vera tvær vikur á Miami Beach.“

Þórir rifjar svo að lokum upp að einu sinni hafi þau hjónin verið að fylgja kunningja þeirra til grafar í Boca Raton í Flórída.

„Kapellan var í stórum kirkju­garði þar sem fjöldi heldri borgara bæjarins hafði verið lagður til hinstu hvílu. Að lokinni at­höfn var gengið stuttan spöl að opinni gröfinni. Hugsaði ég hve hann hefði verið út­sjónar­samur að fá leiði á svona flottum stað. Þegar búið var að kasta rekunum tygjaði fólk sig til brott­farar. Á­varpaði ég einn starfs­mann garðsins og dáðist að því hve gröfin væri á góðum stað. Hann svaraði lágum rómi: „Biddu fyrir þér. Þetta er bara sýndar­gröfin. Þegar allir eru farnir verður kistan hífð upp og síðan sett niður í hans eigin gröf í út­jaðrinum við girðinguna.“