Þórhildur Sunna segir Bjarna ekki á sama báti: „Sótti sér 115 þúsund króna launahækkun í vor“

„Það sem skiptir máli hér er að fólk átti sig á því að við erum öll í sama bátnum. Við erum öll að eiga við þessar aðstæður sem hafa skapast hér. Við erum í efnahagslegri lægð og þurfum að finna viðspyrnu til að spyrna okkar upp af botni þessarar lægðar,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, um stöðuna á vinnumarkaði. Hann ræddi við Vísi fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag.

Hann segir samhent átak í viðspyrna skipta mjög miklu máli, það byrji á því að lýst sé yfir skilningi á aðstæðum og vilja til að taka á stöðunni. „Og það er sjálfsagt ýmislegt sem kæmi til greina ef menn eru í einhverju samstilltu átaki, það þurfa allir að leggja eitthvað af mörkum. En mér finnst þetta vera dálítið krampakennt fram á þessa daga.“

Bjarni segir augljóst að efnahagslegar forsendur séu brostnar, það sé hins vegar aðila vinnumarkaðarins að finna út úr því hvort einstaka samningsforsendur væru það einnig.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sakar Bjarna um tvískinnung á Facebook.

„Bjarni sótti sér 115 þúsund króna launahækkun í vor og greip ekki tækifærið til þess “vera á sama báti” og almenningur með því að frysta amk þessa launahækkun þegar við Píratar lögðum það til,“ segir Þórhildur Sunna. „Bjarni hefur auðvitað aldrei verið á sama báti og launafólk, en honum finnst kannski erfitt að sjá það frá snekkjunni sinni við Seychelles eyjar.“