Þór­hildur Sunna: „Hve­nær verða kosningar?“

29. maí 2020
14:55
Fréttir & pistlar

Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir, þing­maður Pírata, segir að tíma­setning næstu þing­kosninga sé ekki einka­mál ríkis­stjórnarinnar. Þór­hildur vakti máls á þessu í um­ræðum um störf þingsins á Al­þingi í dag en ó­vissa ríkir um það hvort kosið verður um vor eða haust 2021.

„Hve­nær verða kosningar? Það vitum við ekki og það eigum við ekki að fá að vita fyrr en ein­hvern tímann í haust og þá kannski ekki einu sinni með fullri vissu. Hins vegar hafa for­menn ríkis­stjórnar­flokkanna tjáð sig nokkuð frjáls­lega um tíma­setningu kosninga.“

Hefð er fyrir því að kosið sé að vori en þar sem síðustu kosningar fóru fram að hausti en sam­kvæmt stjórn­skipan lýkur kjör­tíma­bilinu ekki fyrr en í októ­ber á næsta ári.

Þór­hildur Sunna segir að ærnar á­stæður séu fyrir því að kosningar fari fram að vori. Þær gefi ráð­herrum tíma til að setja sig inn í ráðu­neyti sín og rúman tíma til að semja fjár­lög fyrir haustið.

„Haust­kosningar fela aftur á móti í sér mjög skamman tíma fyrir þá vinnu. Komist ný ríkis­stjórn til valda situr hún að vissu marki uppi með stefnu­mótun hinnar fyrri í heilt ár í við­bót í ljósi tíma­skorts við vinnu á fjár­laga­frum­varpi,“ sagði Þór­hildur.

Þór­hildur sagði að ríkis­stjórn sem hefði í huga að sitja út kjör­tíma­bilið ætti að sjá sóma sinn í því að láta þing og þjóð vita hve­nær hún hyggst boða til kosninga.

„Þetta skiptir máli vegna þess að til stendur að breyta kosninga­lögum og við vitum að það er mikil­vægt að það sé gert eins fljótt og unnt er þannig að sem mestur tími liggi á milli mikil­vægra breytinga á kosninga­lögum og svo kosninganna sjálfra. Þetta er lýð­ræðis­mál, þetta er mjög mikil­vægt lýð­ræðis­mál. Þetta hefur á­hrif á vinnu þingsins og þetta hefur á­hrif á upp­lýsta kjós­endur sem vilja vita hve­nær þeir fái að velja sér full­trúa að nýju.“

Samkvæmt nýrri könnun MMR um fylgi flokkanna nýtur Sjálfstæðisflokkurinn mests fylgis. Píratar koma þar á eftir en þeir hafa sótt í sig veðrið í könnunum að undanförnu.