Þórhildur Gyða opnar sig um vefjagigtina: „Til þeirra sem halda því fram ég gerði þetta fyrir athygli“

Baráttukonan Þórhildur Gyða Arnarsdóttir hefur ljóstrað upp að hún glímir við vefjagigt. Síðustu vikur hefur hún fundið fyrir mörgum einkennum sem blossa upp þegar hún er undir álagi. Þar á meðal óeðlilegan kvíða, svefntruflanir og verki í vöðvum.

Þórhildur Gyða steig fram í ágúst síðastliðnum til að leiðrétta ummæli þáverandi formanns KSÍ, Guðna Bergssonar, um að enginn landsliðsmaður hafi verið sakaður um kynferðisbrot. Lýsti hún svo ofbeldi sem hún varð fyrir og var viðurkennt. Síðar var upplýst að um væri að ræða Kolbein Sigþórsson.

Margir hafa sakað Þórhildi Gyðu um að gera of mikið mál úr atvikinu og nýta sér það til að ná sér í athygli. Þá hefur hún kært lögmanninn Sigurð G. Guðjónsson fyrir birtingu gagna um sig.

Þórhildur birtir lista yfir einkenni sín á Twitter og segir:

„Ég er með vefjagigt og einkenni hennar blossa upp þegar ég er undir miklu álagi. Hér er listi af einkennum (hann er þó ekki tæmandi) og undirstrikað undir þau einkenni sem ég hef fundið fyrir síðastliðnar vikur. Til þeirra sem halda því fram ég gerði þetta fyrir athygli fokk off.“