Þorgrímur vill að ríkisstjórnin ráði barnabókahöfunda í fullt starf í 2-3 ár

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur leggur til að ríkisstjórnin ráði tíu til tólf barna- og unglingabókahöfunda í fullt starf í tvö til þrjú ár með það að markmiðið að koma í veg fyrir frekara ólæsi á Íslandi.
Þorgrímur varpar þessari athyglisverðu hugmynd fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Læsi og lesskilningur er Þorgrími hugleikinn enda hefur hann um árabil verið í hópi afkastamestu barna- og unglingabókahöfunda landsins.
Í grein sinni segir Þorgrímur:
„Á hverju ári gæti hver um sig skrifað tvær til fjórar ólíkar bækur á mismunandi erfiðleikastigi fyrir leik- og grunnskólabörn og í takt við áhugamál þeirra, sem er lykilatriði. Allir skólar fengju eitt bekkjarsett af hverri bók, 25 bækur, og höfundarnir myndu síðan skipta með sér skólum, heimsækja þá alla og vera með „kveikjur“, upplestur, skapandi skrif og fleira til að auka áhuga á lestri.“
Þorgrímur segir að hans reynsla sem rithöfundur sýni að þetta glæði áhuga á sögum, auki orðaforða, námsárangur verður betri og sjálfstraust eykst.
„Skólarnir þurfa aðstoð, börnin þurfa hjálp, flestir foreldrar líka þegar læsi er annars vegar. Þessi fjárfesting í komandi kynslóðum myndi kosta ríkissjóð brotabrotabrot af þeim fjármunum sem dreifast víða í núverandi ástandi. Fyrsta stigs forvarnir hafa yfirleitt setið á hakanum en það litla fjármagn sem er þó sett í þann málaflokk sparar samfélaginu milljarða þegar fram líða stundir.
Þorgrímur spyr síðan hvers virði hvert mannslíf er, 100 milljónir eða kannski milljarður.
„Ég er sannfærður um að við Íslendingar myndum safna milljarði á skömmum tíma til að bjarga einu lífi. Ofangreind aðgerð myndi kosta um 160 milljónir á ári, með öllu! Við rithöfundar erum algjörlega vannýttir þegar kemur að því að heimsækja skóla með spennandi kveikjur, yfirleitt vegna fjárskorts skólanna og bágborins skilnings yfirvalda. Nú er sannarlega lag. Með samtakamætti er hægt að fjárfesta í komandi kynslóðum! En hvers er að taka fyrsta skrefið?“