Þórður segir Birgi fagmann í að drepa málum á dreif – „Fullkomið fúsk“

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, vandar Birgi Ármannssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og formanni undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar, ekki kveðjurnar í pistli á vefsíðu Kjarnans í dag. Hann segir að Birgi sérfræðing í að svara innihaldslausum svörum, éta upp tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn þurfi á að halda og drepa málum sem þessum á dreif.

Birgir, ásamt öðrum meðlimum undirbúningsnefndarinnar, hafa staðið í ströngu síðustu tæpu tvo mánuði við það að rannsaka meðferð kjörgagna og hvernig var staðið að kosningamálum í Norðvesturkjördæmi. Þórður segir nefndina hins vegar hafa brugðist verulega.

Þá varpar hann fram samsæriskenningu um að starf nefndarinnar hafi hreinlega verið yfirvarp svo að ríkisstjórnarflokkarnir gætu tekið lengri tíma í samtölum sínum fyrir erfið mál:

„Það læð­ist að manni sá grunur að tveggja mán­aða starf und­ir­bún­ings­nefndar fyrir afhend­ingu kjör­bréfa hafi fyrst og síð­ast verið yfir­varp svo Vinstri græn og kerf­is­flokk­arnir tveir gætu tekið sér góðan tíma í að finna lægsta sam­nefnar­ann í lyk­il­málum sem þeir þurfa að lenda með ein­hverjum hætti í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­um,“ segir Þórður.

Hann heldur því fram að niðurstaðan hafi verið fyrifram ákveðin: „Alls liðu 140 dagar frá síð­asta þing­fundi í júli og fram að þeim fyrsta á þessu kjör­tíma­bili, sem fór fram fyrr í vik­unni. Löngu hafi verið búið að ákveðna hver nið­ur­staðan um úthlutun kjör­bréfa ætti að vera.“

Því næst vindur Þórður sér að því að úthúða Birgi Ármannssyni. Hann sakar Birgi um óásættanleg vinnubrögð, á sama tíma og hann hrósar honum kaldhæðnislega: „Enginn er betur til þess fall­inn að leiða slíka vinnu en Birgir Ármanns­son. Hann er fær­asti stjórn­mála­maður Íslands í að drepa málum á dreif, í að éta upp tíma þegar flokkur hans þarf á slíku að halda og hefur gert það að póli­tískri list­grein að svara spurn­ingum með svörum án inni­halds. Birgir leysti fyrir vikið verk­efni sitt sem for­maður und­ir­bún­ings­nefnd­ar­innar óað­finn­an­lega.“

Þórður segir enn fremur að undirbúningsnefndin hafi brugðist: „Þótt nefndin hans Birgis hafi starfað í tvo mán­uði, fundað í á fjórða tug skipta, farið í oft í ferðir í kjör­dæmið og skilað skýrslu upp á 91 blað­síðu þá er það ekki stað­fest­ing á því að vinna nefnd­ar­innar hafi verið góð. Raunar má færa rök fyrir því að hún hafi brugð­ist veru­lega,“ segir hann.

Þórður kallar niðurstöðuna sem meirihluti kjörinna fulltrúa á Alþingi komst að í gærkvöldi sé fullkomið fúsk: „Hér hljóta flestir að átta sig á því að nið­ur­staðan sem var sam­þykkt í gær, og skipar lög­gjaf­ar­sam­kundu þjóð­ar­innar á kom­andi kjör­tíma­bili, er full­komið fúsk.“

Þórður sparar ekki stóru orðin sem fyrr og fullyrðir að enginn þeirra sem kaus með niðurstöðunni hafi fylgt sinni stjórnarskrárbundnu sannfæringu: „Þeir sem kusu með henni gerðu það vegna þess að nið­ur­staðan hent­aði þeim. Engin gerði það af full­vissu um að fram­kvæmd kosn­inga hafi verið í lagi. En þetta fólk rök­styður afstöðu sína fyrir sjálfu sér með því að skýr brot á fram­kvæmd kosn­inga í Norð­vest­ur­kjör­dæmi hafi ekki haft áhrif á end­an­lega nið­ur­stöðu kosn­inga,“ segir Þórður.

Hann vekur lesendur til umhugsunar: „Nið­ur­stað­an, og rök­stuðn­ing­ur­inn sem er settur fram fyrir henni, leiðir til þess að óvissa er um hvort það þurfi yfir höfuð að fara eftir kosn­inga­lögum við fram­kvæmd kosn­inga ef meiri­hluti þing­manna er ánægður með fram­setta nið­ur­stöðu. Þetta er óum­deil­an­leg stað­reynd. Meltið hana aðeins.“