Þórður festi strætisvagninn: Hrósar ungum dreng í hástert sem vildi allt fyrir hann gera

Unga kynslóðin fær stundum á sig óréttmæta gagnrýni fyrir að vera löt og tillitslaus. Það átti alls ekki við þegar strætóbílstjórinn Þórður Sigurjónsson festi strætisvagn sinn í Norðlingaholti milli klukkan 22 og 23 á mánudagskvöld.

Vonskuveður gekk yfir höfuðborgarsvæðið á mánudag og aðfaranótt þriðjudags og var færð í efri byggðum orðin nokkuð þung þegar líða fór á kvöldið. Fjölmargir festu bifreiðar sínar og lenti Þórður meðal annars í vandræðum á strætisvagni sínum.

Hann segir svo frá í íbúahópi Árbæinga á Facebook þar sem hann færir ungum dreng miklar þakkir fyrir hjálp sína.

„Var að keyra strætó í gær og festi hann í Norðlingaholti milli 22 og 23. Það var einn strákur í vagninum á milli 12 og 14 ára sem vildi allt fyrir mig gera. Hann fór meira að segja út og fór að skafa frá dekkjum með höndunum,“ segir Þórður og bætir við að foreldrar þessa drengs megi vera ánægðir með hann, enda topp strákur.

Færslan vakti talsverða athygli og voru margir sem settu „læk“ við færsluna, enda þykir mörgum gaman að lesa fréttir af góðverkum og náungakærleik. Þórður sagði svo að hann vildi gjarnan verðlauna drenginn fyrir hjálpsemina ef einhver gæti bent honum á hann.