Þórdís furðar sig á skilaboðum sóttvarnalæknis - Bólu­efni úr „simpansa­veiru“: „Sama og þegið“

Þór­dís Björk Sigur­þórs­dóttir, íbúi í Hafnar­firði og við­skipta­fræðingur, hefur í­trekað talað gegn bólu­efnum og sótt­varna­að­gerðum til að bregðast við heims­far­aldri CO­VID-19 en hún komst meðal annars í fréttirnar síðast­liðinn nóvember þegar hún gagn­rýndi lög­reglu fyrir meintar glugga­gægjur.

Hún heldur nú úti blog síðu þar sem hún kemur sínum skoðunum á fram­færi en í nýjustu færslunni, sem birt var í gær, greinir hún frá því að hún hafi fengið boð í bólu­setningu með bólu­efni AstraZene­ca, sem er ætlað starfs­mönnum hjúkrunar- og dvalar­heimila.

„Skil ekki hvers vegna hann er að senda mér þetta. Hef þó nokkrum sinnum skrifað honum og mót­mælt hinu og þessu í sam­bandi við þessa al­þjóð­legu til­rauna­starf­semi lyfja­fyrir­tækjanna með ó­full­prófuð lyf. Samt sendir hann mér strika­merki og skipar manni að mæta í stutt­erma­bol í bólu­setningu,“ skrifar Þór­dís.

Þórdís birti SMS skilaboðin þar sem henni var boðið í bólusetningu.

„Ekki nóg með það, heldur sendi hann manninum mínum þetta líka, sem sagt mitt boð. Í símann hans. Þarf hann að láta marga vita? Kannski komið út um allan bæ!“

Hún vísar til þess að bólu­efni AstraZene­ca er þróað út frá adenoveiru úr simpönsum, þar sem veira sem smitar vana­legast að­eins simpansa er tekin og erfða­breytt til að draga úr sjúk­dómum hjá mann­fólki en veiran hefur í gegnum tíðina verið notuð við þróun bólu­efna af ýmsu tagi.

„Þar að auki er þetta bólu­efni sem inni­heldur Simpansa­veiru, og eitt­hvað erfða­breytt efni úr fóstri,“ segir Þór­dís og vísaði þar einnig til þess að bólu­efni hafi í gegnum tíðina verið þróuð út frá erfða­breyttum frumum úr fóstrum.

„Sama og þegið,“ segir Þór­dís ein­fald­lega.

Bólu­efni AstraZene­ca fékk skil­yrt markaðs­leyfi hér á landi í lok janúar eftir að Lyfja­stofnun Evrópu mælti með bólu­efninu.