Þórdís Elva: Allt breyttist þegar hún var 8 ára - „Það bara dó eitthvað sakleysi innra með mér“

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hefur í 15 ár barist gegn kynbundnu ofbeldi. Í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins segir hún meðal annars frá því hvernig hún hafi mjög ung áttað sig á ójöfnum leik kynjanna.

Þórdís bjó lengi í Svíþjóð ásamt fjölskyldu sinni sem barn, og þegar hún var átta ára gömul skók hvarf ungrar stúlku á svæðinu sænsku þjóðina og hafði málið mikil áhrif á hana. „Stúlkan hét Helén og var ári eldri en ég og ég samsamaði mig mikið með henni. Þjóðin hélt í sér andanum á meðan leitað var að henni um allt. Þetta varð mjög intensíft og ég lifði mig mikið inn í málið og hreinlega svaf ekki á meðan á leitinni stóð.“ Helén fannst nokkrum dögum eftir hvarfið, hún hafði verið svelt, henni nauðgað og hún pyntuð áður en hún var myrt og lík hennar sett í ruslapoka.

„Það bara dó eitthvað sakleysi innra með mér. Ég var því mjög lítil þegar ég áttaði mig á því að þetta væri ójafn leikur. Hún var tekin því hún var stelpa og allt í einu upplifði ég að ég gæti orðið bráð og varð mjög myrkfælin. Ég held að það sé mikilvægt að taka umræðuna við svona viðkvæm og bráðþroska börn en það var ekki meðvitund um það á þessum tíma. Ég áttaði mig þarna á að það væri meiri líkur á að við stelpurnar enduðum í ruslapoka einhvers staðar, en strákarnir.“