Þórdís Elva: 86 prósent kvenna finnst óumbeðnar typpamyndir ekki sexý

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hefur í fimmtán ár barist gegn kynbundnu ofbeldi með margvíslegum hætti. Nú hefur hún sett á laggirnar norræn samtök um stafræn réttindi og segir frá því í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins.

Það er stafrænt ofbeldi sem á sem fyrr segir hug Þórdísar allan og í vikunni hélt hún meðal annars erindi á vegum Evrópusambandsins fyrir jafnréttisráðherra stærstu ríkja þess. „Stafrænt ofbeldi er ofboðslega kynjað og ég held að fæstir átti sig á því hversu ólíkar birtingarmyndir það hefur fyrir konur og karla. Konur fá yfir sig mikið meiri kynferðislega áreitni,“ segir Þórdís.

Ein birtingarmynd þess eru óumbeðnar myndir af kynfærum og bendir Þórdís á viðhorfsrannsóknir sem gerðar hafa verið í Bretlandi og Bandaríkjunum. „Þar kom í ljós að rúmlega helmingur ungra kvenna hafði fengið óumbeðnar typpamyndir. Ég hugsa að talan sé svipuð hér á landi enda erum við mjög stafræn þjóð.“

Þórdís segir ekki síst áhugavert að þegar konur voru spurðar hvort þeim þættu slíkar myndsendingar sexý svöruðu 86 prósent þeirra alls ekki. „Óumbeðin nektarmynd er form af kynferðislegri áreitni og í ár tóku hér á landi gildi lög um kynferðislega friðhelgi. Það er ekki í lagi að ryðjast inn í hana með nektarmynd, það er lögbrot.“