Þórarinn opnar sig um hrotta­legt of­beldi: „Hún tók okkur upp á hárinu, sparkaði fast í okkur með tré­klossum“ – einn framdi sjálfs­víg.

At­hafna­maðurinn Þórarinn Ævars­son opnar sig um hrotta­legt of­beldi í hlað­varpi Sölva Tryggva­sonar sem hann segir að um­sjónar­kennari sinn í barna­skóli hafi beitt sig og bekkjar­fé­laga sína. Envísir.is greinir frá.

Þórarinn segir að hann hafi á aldrinum 7-11 ára aldurs mátt sæta of­beldi og fanta­skap af hálfu kennslu­konunnar. Hún hafi tekið sig og nokkra drengi fyrir sem allir flosnuðu upp frá námi og einn hefur fyrir­farið sér.

Þórarinn greindi fyrst frá of­beldinu í hlað­varpinu en hann vakti miklar at­hygli fyrir vaska fram­göngu þegar hann var fram­kvæmda­stjóri IKEA. Hann stofnaði síðan pitsa­staðinn Spaðann sem fór í þrot.

Hann hefur nú farið í mikla sjálfs­vinnu en rakst þar á mikinn vegg vegna þess of­beldis sem hann varð fyrir í barna­skóla. Of­beldið stóð yfir í nokkurra ára skeið og hefur hann rætt þetta við bekkjar­fé­laga sína sem þurftu að þola það sama.

„Ég var mjög góður nemandi og var orðinn flug­læs 5-6 ára gamall og þurfti aldrei að læra heima. En frá 7-11 ára aldurs var ég með um­sjónar­kennara sem þoldi ekki mig og nokkra aðra stráka í bekknum og beitti okkur hrotta­legu of­beldi, bæði líkam­legu og and­legu. Þetta var kona, sem virtist ekki þola mig og nokkra aðra stráka,“ segir Þórarinn í sam­tali við Sölva.

„Hún tók okkur iðu­lega einn í einu fram á gang, þar sem hún tók okkur upp á hárinu, sparkaði fast í okkur með tré­klossum og fleira og fleira þegar enginn sá til. Hún beitti okkur í raun sadískum fanta­skap.“

Hann segir að þegar hann lítur til­baka var eins og kennarinn hafi valið að níðast á drengjum með veikt bak­land.

„Kannski vorum við með ein­hvern snert af ADHD, en við vorum bara venju­legir strákar, en hún þoldi ekki hvað við þurftum lítið á henni að halda. Einn af okkur, mjög góður vinur minn, Davíð Elvar Davíðs­son, var á­berandi klárasti strákurinn í bekknum og í raun öllum ár­gangnum.“

Hægt er að hlusta á við­talið við Þórarinn hér.