Athafnamaðurinn Þórarinn Ævarsson opnar sig um hrottalegt ofbeldi í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar sem hann segir að umsjónarkennari sinn í barnaskóli hafi beitt sig og bekkjarfélaga sína. Envísir.is greinir frá.
Þórarinn segir að hann hafi á aldrinum 7-11 ára aldurs mátt sæta ofbeldi og fantaskap af hálfu kennslukonunnar. Hún hafi tekið sig og nokkra drengi fyrir sem allir flosnuðu upp frá námi og einn hefur fyrirfarið sér.
Þórarinn greindi fyrst frá ofbeldinu í hlaðvarpinu en hann vakti miklar athygli fyrir vaska framgöngu þegar hann var framkvæmdastjóri IKEA. Hann stofnaði síðan pitsastaðinn Spaðann sem fór í þrot.
Hann hefur nú farið í mikla sjálfsvinnu en rakst þar á mikinn vegg vegna þess ofbeldis sem hann varð fyrir í barnaskóla. Ofbeldið stóð yfir í nokkurra ára skeið og hefur hann rætt þetta við bekkjarfélaga sína sem þurftu að þola það sama.
„Ég var mjög góður nemandi og var orðinn fluglæs 5-6 ára gamall og þurfti aldrei að læra heima. En frá 7-11 ára aldurs var ég með umsjónarkennara sem þoldi ekki mig og nokkra aðra stráka í bekknum og beitti okkur hrottalegu ofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu. Þetta var kona, sem virtist ekki þola mig og nokkra aðra stráka,“ segir Þórarinn í samtali við Sölva.
„Hún tók okkur iðulega einn í einu fram á gang, þar sem hún tók okkur upp á hárinu, sparkaði fast í okkur með tréklossum og fleira og fleira þegar enginn sá til. Hún beitti okkur í raun sadískum fantaskap.“
Hann segir að þegar hann lítur tilbaka var eins og kennarinn hafi valið að níðast á drengjum með veikt bakland.
„Kannski vorum við með einhvern snert af ADHD, en við vorum bara venjulegir strákar, en hún þoldi ekki hvað við þurftum lítið á henni að halda. Einn af okkur, mjög góður vinur minn, Davíð Elvar Davíðsson, var áberandi klárasti strákurinn í bekknum og í raun öllum árgangnum.“
Hægt er að hlusta á viðtalið við Þórarinn hér.