Þórarinn minnist vinar síns í einlægum pistli: „Bar­áttu­maður fyrir betri heimi sem átti margt ó­sagt og mörgu ó­lokið“

Þórarinn Þórarins­son, blaða­maður á Frétta­blaðinu, minnist vinar síns Hrafni Jökuls­syni í einlægum pistlií blaðinu í dag.

„Hrafn Jökuls­son var rétt tæp­lega 57 ára þegar hann lést og með honum er genginn ó­þreytandi bar­áttu­maður fyrir betri heimi sem átti margt ó­sagt og mörgu ó­lokið,“ skrifar Þórarinn.

„Eins og svo oft vill verða með eld­huga sem fara sínar eigin leiðir áttu gjörvi­leiki Hrafns og gæfa ekki alltaf sam­leið og öllum þeim hæfi­leikum og kostum sem hann var gæddur fylgdu djöflar sem hann mátti draga án þess þó að missa sjónar á mál­staðnum. Hver svo sem hann var hverju sinni.“

„Hrafn var frá­bært skáld sem orti ekki að­eins ljóð heldur lífið sjálft og til marks um lýríska fegurðina í þeim kveð­skap er að daginn sem hann dó komu hingað 24 grunn­skóla­börn frá austur­strönd Græn­lands til að læra að synda og ganga í skóla í Kópa­vogi með ís­lenskum börnum,“ skrifar Þórarinn.

„Hrafn, for­seti Skák­fé­lagsins Hróksins, og Stefán Her­berts­son, stjórnar­maður í Kalak, vina­fé­lagi Græn­lands, settu þetta verk­efni af stað fyrir sau­tján árum og þótt Hrafn væri flug­mælskur og flestum stíl­fimari eftir­lét hann oft verkunum að tala. Vonandi verður þetta að­eins eitt þeirra sem munu halda á­fram þótt Krummi sé þagnaður.

Hrafni varð tíð­rætt um lífið á 64 reitum og horfði stundum yfir það sem tafl­borð væri. Sér­stak­lega þegar út­litið var dökkt og minnti þá á að staðan breytist með hverjum leik og ekki er hún góð nú þegar Hrókur alls fagnaðar er fallinn.“

„Hér eru öll kerfi í kerfi,“ sagði Hrafn í við­tali við Frétta­blaðið þremur vikum áður en hann lést og beindi spjótum sínum sér­stak­lega að geð­heil­brigðis­kerfinu sem er í bók­staf­legum henglum.

„Ég hef tekið mér núna næstum því tvö ár í að undir­búa mína gagn­sókn og nú er ég til­búinn og ég ætla að ná fram rétt­lætinu,“ sagði Hrafn sem hugðist draga ís­lenska ríkið fyrir dóm­stóla vegna harka­legrar hand­töku, nauðungar­vistunar í því sem hann kallaði graf­hýsið á deild 32C, of­beldis sem hann varð fyrir þar og lækna­mis­taka sem hann gæti, væri hann enn á meðal vor, fært í sann­færandi máli rök fyrir að hafi kostað hann lífið.

Kerfis­villurnar liggja úti um allt sam­fé­lag sem sjó­rekið plast og sígarettu­stubbar væru þannig að þótt Hrafninn sé floginn, örvum glaður, er enn verk að vinna með hendur langt fram úr ermum,“ skrifar Þórarinn að lokum.