Þórarinn hugsi yfir miklum af­slætti Domin­os: „Hvernig geta þeir verið að bjóða 50% af­slátt?“

29. maí 2020
07:59
Fréttir & pistlar

Þórarinn Ævars­son, fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóri IKEA og eig­andi pitsa­staðarins Spaðans, furðar sig á því hvernig Domin­os getur boðið 50% af­slátt á pítsum. Þórarinn opnaði pitsa­staðinn Spaðann ný­lega á Dal­vegi í Kópa­vogi.

Í sam­tali við Morgun­blaðið í dag bendir Þórarinn á að pítsur sem kosta alla jafna um 3.700 krónur á mat­seðli hjá Domin­os séu nú á til­boði á 1.790 krónur. Um er að ræða svo­kallað Tríó þar sem þrjár pítsur á mat­seðli eru á þessu verði hverju sinni.

„Hvernig geta þeir verið að bjóða 50% af­slátt? Það segir manni að á­lagningin hafi nú verið ein­hver,“ segir Þórarinn í Morgun­blaðinu og telur að keppi­nautar Spaðans hafi brugðist við aukinni sam­keppni með verð­lækkunum.

„Ég átti nú von á því að þeir myndu bregðast hressi­lega við enda vissu þeir að ég kæmi inn með látum,“ segir hann og kveðst fagna sam­keppninni. Hann bætir við að hann óttist þó að minni aðilar á markaðnum leggi upp laupana.

Markaðs­stjóri Domin­os segir að fyrir­tækið taki allri sam­keppni fagnandi og til­boðið sem Þórarinn vísar til hafi verið lengi í bí­gerð. Mark­miðið sé að kynna við­skipta­vinum þær fjöl­mörgu pítsur sem finna má á mat­seðli staðarins.