Þóra flúði undan lögreglunni á Rhódos og var lokuð inni á herstöð í Víetnam: „Við vorum að smygla hlutum í fangelsið“

Þóra Valný Yngvadóttir, stjórnandi og fjármálaráðgjafi, var gestur í útvarpsþættinum Sunnudagssögum á Rás 2. Þar fjallaði hún um mörg ævintýri sem hún hefur lent í á lífsleiðinni, þá sérstaklega erlendis, en hún hefur ferðast heimshornanna á milli á ævi sinni.

Ung að árum flutti hún ásamt vinkonu sinni til Svíþjóðar, þaðan til Ísrael, þar sem hún bjó á samyrkjubúi um nokkurt skeið, og síðan fór hún til grísku eyjarinnar Rhódos. Þar gekk henni erfiðlega að fá vinnu þar sem Ísland var ekki Evrópusambandinu. En henni tókst þó að fá „skrýtnasta djobb“ sem hún segist hafa unnið við, en það var að ganga um ströndina og gefa miða til að auglýsa diskótek. „Mike's disco, free drinks allt night.“ segist hún hafa sagt endurtekið á meðn hún dreifði miðunum.

Hún þurfti þó að vara sig á lögreglunni, og segir að það hafi komið fyrir að hún hafi þurft að hlaupa frá henni um ströndina, en starf hennar virðist ekki hafa verið algjörlega löglegt.

„Ég þurfti að passa að lögreglan myndi ekki ná mér, og í eitt eða tvö skipti var ég hlaupandi um Rhódos hingað og þangað því ég hafði séð lögguna eða löggan séð mig,“ segir hún.

Föst á herstöð í Víetnam

Síðan í byrjun árs 2020 fór hún í ferðalag til Víetnam, en það var einmitt um það leyti sem heimfaraldur kórónuveiru byrjaði að herja á heimsbyggðina, og það átti eftir að koma Þóru, og eiginmanni hennar Júlíusi Ingólfssyni í klandur.

Hún segist hafa verið á ferðalagi um landið þegar fararstjórinn þeirra fékk óvænt símtal, þar sem þeim var tilkynnt að þau þyrftu að fara í „heilsutékk“, sem virtist til að byrja með ansi saklaust, en tvær grímur fóru að renna á Þóru þegar þau voru flutt á herstöð.

„Svo er bara komið með okkur á herstöð. Þar eru bara þriggja metra háir steyptir veggir með gaddavírsgirðingu, eins og maður hefur séð í bandarískum fangelsum. Og við hliðið voru vopnaðir hermenn.“ segir Þóra. Fyrst hafi hópurinn grínast með að þau myndu ekki komast af herstöðinni, en það átti eftir að vera rauninn.

Þau voru flutt inn í herbergi sem innihéldu ekkert nema sjúkrarúm. Hún tekur samt fram að umrædd sjúkrarúm hafi verið af nýjustu gerð, og í raun ansi flott. Þeim var síðan tilkynnt um að þau væru komin í sóttkví, og að þau þyrftu að dvelja á herstöðinni í tvær vikur. Þeim tókst þó að komast í burtu eftir eina viku.

„Þessi tilfinning að vera frelsissviptur, það er rosalegt. Allt í einu er bara búið að ákveða: „Nú tökum við af þér frelsið“, og maður hefur ekkert um það að segja.“ segir Þóra. Hún tekur fram að þau hafi sem betur fer verið með spilið vinsæla uno meðferðis, og þau hafi spilað það grimmt. Þá lýsir hún stemmingunni á herstöðinni sem „fangelsisstemmingu“. „Við vorum að smygla hlutum í fangelsið, fá sendingar, við vorum að æfa brúðarvalsinn. Við reyndum bara að gera okkur eitthvað til skemmtunnar,“ segir hún.