Þór Saari ósáttur við Búlluna: Hækkuðu verðið á tilboði aldarinnar

Þór Saari, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður, er ekki sáttur við eina vinsælustu hamborgarakeðju landsins, Búlluna, eftir að verðið á Tilboði aldarinnar var hækkað.

Þór vekur athygli á þessu í Facebook-hópnum Vertu á verði – eftirlit með verðlagi.

„Rak mig á það í síðustu viku að Búllan hefur hækkað "Tilboð Aldarinnar" um heil 10%. Slíkt dæmi kostar nú 2.190 eða 17 dollara og fimmtíu sent, hvorki meira né minna,“ segir Þór sem tók eftir þessu þegar hann heimsótti útibú Búllunnar í Hafnarfirði.

Tilboð aldarinnar hefur verið býsna vinsælt í gegnum árin en það samanstendur af hamborgara, frönskum kartöflum og gosglasi. Svo virðist vera sem tilboðið kosti nú 2.190 krónur en það kostaði lengi vel 1.890 krónur.

Þó nokkrir hafa skrifað athugasemdir við færslu Þórs og taka margir undir að þetta sé töluverð hækkun. Einn spyr hreinlega: „Hvað er að ykkur?“ og bendir á að tíu prósenta hækkun á þremur til fjórum árum sé ekki mikið, hann kaupi tilboð aldarinnar alla daga og á þriðjudögum sé það á gamla verðinu.

„Það sem er að okkur er að okkur finnst þetta allt of dýrt og við finnum til með meðbræðrum okkar sem ætla að halda áfram að borða á þessu verði,“ segir Þór.