Þjóðþekktir sýna lítil laun og borga engan tekjuskatt

Fjölmiðlar hafa að undanförnu keppst við að birta upplýsingar út tekjublöðum og skattskrám sem sýna skattskyldar tekjur margra Íslendinga sem hafa haft miklar tekjur og greiða þar af leiðandi háan tekjuskatt og leggja þannig mikið til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins.

 

Minna hefur verið birt af upplýsingum um fólk sem er áberandi í þjóðfélaginu, virðist hafa það gott og er oftar en ekki fyrirferðarmikið í samfélaginu en sýnir samt ekki miklar skattskyldar tekjur og leggur því ekki mikið af mörgum til sameiginlegs rekstrarkostnaðar ríkis og sveitarfélaga.

 

Stundum geta verið skýringar á þessu. Engu að síður vekja litlar tekjur furðu þegar um er að ræða fyrirferðarmikið og þekkt fólk í okkar litla samfélagi. Dæmi:

 

Magnús Scheving stofnandi Latabæjar var með 125 þús.kr. í tekjur á mánuði árið 2018. Grímur Garðarsson öflugur fjárfestir var með 96 þúsund. Karl Steingrímsson kenndur við Pelsinn og umsvifamikill fasteignaeigandi var með 432 þúsund í skattskyldar tekjur á mánuði. Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðsins sýndi einungis 344 þúsund króna tekjur árið 2018 á mánuði. Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og stóreignamaður lét sér duga að greiða tekjuskatt af 37þúsund krónum á mánuði. Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður og núverandi talsmaður Orkunnar okkar sýndi tekjur upp á 299 þúsund á mánuði en Björn Valur Gíslason, fyrrum þingmaður Vinstri grænna, taldi einungis fram tekjur að fjárhæð 146 þúsund kr. á mánuði árið 2018 sem þýðir að hann hefur ekki borgað neinn tekjuskatt. Það eru lægri tekjur en áhrifavaldurinn Manúela Ósk Harðardóttir taldi fram. Hún sýndi þó 191 þúsund á mánuði árið 2018. Einnig vekur furðu hve lág laun Arnar Gunnlaugsson telur fram en hann er fjárfestir og þjálfari Víkings í knattspyrnu karla. Hann sýnir einungis 105 þúsund króna tekjur á mánuði árið 2018. Loks má nefna að fyrrverandi formaður Fjármálaeftirlitsins, Halla Sigrún Hjartardóttir var einungis með 80 þúsund krónur á mánuði í skattskyldar tekjur árið 2018.

 

Ótrúlegasta fólk virðist lepja dauðann úr skel ef marka má framtaldar tekjur til skatts.