Þing­maður í deilum við Axel Pétur um hvort jörðin sé flöt – „Bull, bull og bull“

Axel Pétur Axels­son, sjálf­titlaður þjóð­fé­lags­verk­fræðingur og fram­bjóðandi til em­bættis for­seta Ís­lands, segir að engin sönnun sé til fyrir því að jörðin sé hnöttur.

Axel Pétur og Björn Leví Gunnars­son, þing­maður Pírata, hafa rök­rætt þetta fram og til baka í fjörugum um­ræðum í Stjórn­mála­spjallinu á Face­book þar sem þing­maðurinn hefur reynt að sann­færa væntan­legan for­seta­fram­bjóðanda um að jörðin sé í raun og veru hnöttur.

Nokkur þúsund ára sannanir

Öll þessi um­ræða byrjaði í síðustu viku þegar Margrét Frið­riks­dóttir bað Axel Pétur að út­skýra hvernig hann fengi það út að jörðin væri ekki hnött­ótt.

Axel svaraði því til að hann hefði ekki full­yrt að jörðin væri flöt þó „það liggi beinast við“ og engin sönnun væri til um að jörðin væri hnöttur. Um þetta höfðu skapast fjörugar um­ræður síðustu daga sem urðu ekki minna fjörugar þegar Björn Leví á­kvað að blanda sér í þær í morgun.

Björn Leví segir í langri færslu að til séu nokkur þúsund ára sannanir fyrir því að jörðin sé ekki flöt. „Það er til dæmis rosa­lega ein­falt að gera þá til­raun í dag. Til að byrja með hefur þú sam­band við fullt af fólki víðs vegar í kringum heiminn á sama tíma sem er á sömu breiddar­gráðu og spyrð það hversu hátt sólin er á lofti ná­kvæm­lega þá. Svarið verður að sólin er mis­hátt á lofti, sem gæti ekki gerst ef jörðin væri flöt (nema sólin væri rosa­lega ná­lægt jörðinni),“ segir Björn meðal annars.

Axel Pétur svarar stutt og skorin­ort og segir: „Sólin er rosa­lega ná­lægt jörðinni...“

Björn Leví segir þá á móti: „Ein­mitt. Grunaði ekki Gvend,“ og reynir að varpa frekara ljósi á þá stað­reynd að jörðin er ekki flöt og fjar­lægð hennar frá sólinni.

„Nú hafa þó nokkrar atóm­sprengjur verð sprengdar á jörðinni. Þó ekki nema væri fyrir það eitt, þá vitum við þó ekki nema einungis vegna þess, að sólin er um 8 ljósmínútur í burt frá jörðinni. Fjölda­margar aðrar til­raunir, til dæmis há­hraða­mynd­bands­upp­taka af ljósinu sýnir ná­kvæm­lega það sama.“

„Bull, bull og bull“

Hafi Björn Leví haldið að honum tækist að snúa á Axel Pétur skjátlaðist honum hrapal­lega.

„Ljós­hraða­mæli­tækin eru "kali­beruð" ár­lega til að að­lagast breyti­legum ljós­hraða . . . svo­kallaðar atóm­sprengjur eru tnt í stál­röri,“ segir Axel Pétur. Þessu svarar Björn Leví: „Bull, bull og bull. Ég nenni ekki einu sinni að biðja þig um rök­stuðning því ég veit að hann er verri en full­yrðingin hjá þér.“

Orða­skipti Björns Leví og Axels Péturs halda á­fram þar sem Björn Leví reynir, án nokkurs árangurs, að sann­færa Axel Pétur um hver sann­leikurinn í raun og veru eru.

„Pældu í því í augna­blik hversu lang­sótt þetta er hjá þér. Ég er búinn að út­vega þér _að­ferð_ til þess að skoða það með beinum hætti hvernig lögun jarðarinnar er. Að­ferð sem var þróuð fyrir nokkur þúsund árum síðan og snýst ekki um neinar flóknar að­ferðir. Ein­falt prik og mál­band. En nei, CIA sko og TNT í stál­röri. Af­sakið en nei. Þú þarft að horfa vel og lengi í spegil.“

Fréttablaðið/Ernir