Þórarinn Þórarinsson skrifar

Þið getið alveg haldið kjafti

28. mars 2020
16:01
Fréttir & pistlar

Fólk sem hefur aldrei rangt fyrir sér og þarf aldrei, aldrei, aldrei að skipta um skoðun er upp til hópa skelfing leiðinlegt. Engir þó jafn þreytandi og „Nei-aparnir“ sem urðu til við Icesave-stökkbreytinguna.

Fyrir sjö árum tókst frávikinu, með markvissum mislestri, að gera úrskurð EFTA-dómstólsins að þinglýstu vottorði um eigin óskeikulleika og alvisku. Þeir hnarreistustu hafa síðan þá gargað sig hása gegn orkupökkum, hnattrænni hlýnun, vísindum og menntun, bara svona almennt. Að ógleymdu EES og yfirleitt öllu sem frá Evrópu kemur. Nema einum tilteknum EFTA- úrskurði.

Nýjasti þyrnirinn í augunum alsjáandi eru sóttvarnavísindi langskólagenginna sem í kapphlaupi við COVID og klukkuna reyna nú í heiðarlegri örvæntingu að beita bóklærðum teóríum á fordæmalausa praxís.

Hávaðinn sem berst upp úr dýpstu viskubrunnunum er orðinn svo truflandi að full ástæða er til að viðauki verði gerður við Manngerðirnar, sem gríski heimspekingurinn Þeófrastos skrifaði drjúgum 300 árum fyrir Krists burð.

Svo akkúrat var greining spekingsins á þrjátíu skapgerðarbrestum okkar að hún hefur staðist nag tímans tannar í árþúsundir. Hann tekur til dæmis fyrir ólíkindatólið, smjaðrarann, hrokagikkinn, fruntann og dindilmennið og í krafti þess að ég ber alla þessa merkimiða ætla ég að biðja Nei-apana um að drífa sig í sjálfskipaða skoðanasóttkví.

Þið getið alveg haldið kjafti rólegir rétt á meðan enda munið þið alltaf hafa rétt fyrir ykkur óháð því hvernig þessi ósköp öll enda. Þið skrifið svo samviskusamlega það sem illa fór á aðra en færið allt sem gekk upp á eigin reikning.