Þið eruð vísvitandi að dæma okkur til dauða Katrín, Bjarni og Sigurður

Tuttugu þúsund kall skatta og skerðingarlaus eingreiðsla til handa öryrkjum á að bjarga efnahag þeirra í veirufaraldrinum sem nú geisar. Það er björgunarpakkinn sem íslensk stjórnvöld hreykja sér af til fólks sem er með undir 300 þúsund krónur útborgað í tekjur á mánuði og geta ekki leyft sér að kaupa bæði mat og lyf út mánuðinn vegna fátæktar og vegna þess að verð á nauðsynjum hefur og er að hækka.

Í langan tíma hefur örorkulífeyrir ekki haldið í við verðlag hér á Íslandi. Í því samhengi nefni ég að matvara og nauðsynjar hafa hækkað umtalsvert á síðustu tíu árum. Þá hefur leiga hækkað gríðarlega og fæstir örorkulífeyrisþegar hafa efni á því að leigja mannsæmandi húsnæði á almennum leigumarkaði en hýrast þess í stað í ósamþykktu iðnarhúsnæði, mygluðum og rakaskemmdum kjöllurum og í öðrum úrræðum sem ekki einu sinni þætti búfénaði sæmandi, hvað þá fólki.

Frá árinu 2013 hafa allar ríkisstjórnir brotið lagagrein 69 um almannatryggingar þar sem segir skýrt að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni.
Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Þetta hefur orðið til þess að öryrkjar hafa dregist aftur úr í launaþróun og eru nú þetta á milli 70 til 90 þúsund á eftir lægstu launum en markmið laga um almannatryggingar var þó sú að ororkubætur yrðu aldrei lægri en lægstu laun í landinu og er þessi staðreynd því brot á þeim lögum hvað sem hver segir.

Ég ætla að leyfa mér að vísa í grein Þuríðar Hörpu formanns öryrkjabandalags íslands þar sem hún segir:

„Í dag eru flestir öryrkjar heima í einangrun vegna undirliggjandi sjúkdóma, fólk kemst t.d. ekki til læknis til að fá endurnýjun á örorkumat og missir þar af leiðandi framfærslu, það á sífellt erfiðara með að sækja sér matarbjörg og lyf. Sumir eiga erfitt með daglega umhirðu og hreinlæti, fólk er kvíðið og hrætt. Fjölmargir íslendingar upplifa það nú á eigin skinni, hvernig líf öryrkjans er. Félagslega einangraður, fer lítið sem ekkert út, algerlega upp á aðra kominn. Þegar þessum faraldri linnir, sitja öryrkjar eftir, eins og áður, félagslega einangraðir, skammtaður smánarlífeyri frá þeim sem ættu að verja og vernda hópinn.

Stjórnvöld hafa lokað augunum gagnvart fátækt á Íslandi, fríað sig ábyrgð á ástandinu og ýtt því yfir á hjálparstofnanir. Þegar öryrkjar sem í dag búa við bágust kjör í samfélaginu, geta ekki lengur orðið sér út um nauðsynjar s.s. mat hjá hjálparstofnunum, kemur bitur sannleikurinn í ljós. Örorka á ekki að vera ávísun á fátækt. En hún er það í dag, hér býr fatlað og langveikt fólk með örorku við sára fátækt. Stjórnvöld verða að stíga fram og taka utan um öryrkja, hafi það verið mikilvægt einhverntíman þá er það orðið lífsnauðsynlegt í dag!“

Haldið þið Katrín, Bjarni og Sigurður að með því að loka augunum og sjá ekki vanda þessa hóps að þá hverfi hann? Gufi bara upp og sé ekki lengur til?

Þið getið breytt þessu ástandi strax með því að afnema þær ómannúðlegu og ósanngjörnu skerðingar sem lagðar eru á öryrkja og hækkað grunnlífeyrinn um 100 þúsund krónur á mánuði því fyrir þá aðgerð mundi fólk muna eftir ykkur með hlýju og þakklæti en ekki hafa á ykkur megnustu fyrirlitningu og hatur eins og því miður núna er því með því að snúa blinda auganu að ástandinu og láta sem það sé ekki til eruð þið meðvitað og vísvitandi að myrða fólk sem er ósjálfbjarga í einangrun heima hjá sér og getur enga björg sér veitt.

Ef þið getið „bjargað“ fyrirtækjum sem hafa greitt sér tugi milljarða í arðgreiðslur á undanförnum árum án þess að blikna eða blána þá er engin, ekki nokkur einasta afsökun fyrir því að láta aldrað og veikt fólk deyja drottni sínum einmanna og afskipt vegna afskipta og sinnuleysis ykkar og algjörrar blindu.

Nema það séu samantekin ráð hjá ykkur að fækka í hópi öryrkja og aldraðra með þessum hætti því þessir hópar eru svo „dýrir“ fyrir þjóðfélagið og mikill baggi á ríkisstjóði.

Maður spyr sig?

Jack Hrafnkell Daníelsson er öryrki og efnhagslegur flóttamaður búsettur erlendis.