Þetta sagði katrín fyrir þremur árum: nú segir hún þetta – „svona er nú staðfestan í stjórnmálunum“

Benedikt Jóhannesson gagnrýnir Katrínu Jakobsdóttur harðlega á Facebook. Hann deilir frétt Fréttablaðsins þar sem forsætisráðherra segir mögulegt sé að setja á laggirnar stjórn yfir Landspítala. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokks, gerði rekstur Landspítalans að umtalsefni á fyrsta þingfundi ársins. Benedikt bendir á misræmi í málflutningi Katrínar. Hann segir:

„Fyrir þremur árum sagði Katrín Jakobsdóttir, þingmaður í stjórnarandstöðu:

„Ég spyr mig hvort það sé ástæðan fyrir því að meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að skipuð verði einhvers konar pólitísk stjórn yfir Landspítalann. Er það vegna þess að stjórnendur spítalans hafa verið jafn öflugir og raun ber vitni við að benda á þá stöðu sem er á spítalanum?“

Nú segir forsætisráðherra um sama mál:

„Ég tel að það sé eitthvað sem megi skoða. Við höfum auðvitað fordæmi, til að mynda frá erlendum sambærilegum háskólasjúkrahúsum. Mér finnst þá mikilvægt að það verði horft til þess hvernig slíkar stjórnir eru útfærðar. Að þær virki í raun og veru sem fagleg styrking ásamt því að vera almenn styrking á öllum rekstri sjúkrahúsa. Við höfum séð góð og vel heppnuð dæmi um þetta, ég get nefnt til að mynda Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Þannig ég útiloka ekki þá hugmynd.“

Þá bætir Benedikt við:

„Svona er nú staðfestan í stjórnmálunum. Og virðing fyrir Alþingi í samræmi við það.“