Þetta borgaði Kolbrún fyrir vínið: Hefði hún átt að fá meira í glösin?

Fjörugar umræður hafa skapast í einum vinsælasta Facebook-hópi landsins, Matartips, um vínmagn í glösum á veitingastöðum. Kona ein, Kolbrún að nafni, birti þá mynd af tveimur vínglösum og sagði:

„Þessir dropar eru skammtarnir í vínglasi hjá Bál vín og grill í Borg 29 mathöll 900kr á happy hour.“

Svo virðist sem Kolbrún hafi viljað fá meira í glösin og taka sumir, en langt því frá allir, undir það.

„Rausnarlegt,“ segir einn á meðan annar bætir við: „Aumingja þjónninn yrði að standa yfir mér með flöskuna til að fylla á, tæki því ekki að fara með flöskuna.“ Sá þriðji segir: „Minna mátti það ekki vera. Þetta glas er alls ekki belgmikið.“

Þeir sem voru ósammála Kolbrúnu voru þó talsvert fjölmennari.

„Hvað vildir þú? Fullt mjólkur glas. Þetta snýst um að njóta. Gæði fremur en magn,“ segir einn á meðan næsti bætir við: „Bara rétt magn.“ Annar skrifar nánast það sama aðeins neðar í þræðinum: „Þetta er bara rétt magn.“ Fleiri taka í svipaðan streng:

„Þetta er bara flott magn, ég er búin að heyra frábæra hluti um þennan stað. Hlakka mikið til að prufa,“ segir í einni athugasemd og undir hana er tekið í annarri: „Nákvæmlega svona myndi ég vilja fá hvítvínsglasið mitt! Mjög flott og efast ekki um að vínið hefur verið mjög gott! Hlakka mikið til að prófa þennan stað! Búin að heyra frábæra hluti.“