Þessir þingmenn keyrðu fyrir meira en milljón: Ásmundur ekki í fyrsta sæti

Alls keyrðu ellefu þingmenn fyrir eina milljón króna eða meira á síðasta ári. Í fyrsta sinn síðan Alþingi tók að birta aksturskostnað þingmanna er Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ekki sá sem ók fyrir mestan pening.

Í þetta skiptið var það þingmaður Samfylkingarinnar, Gunnar S. Brjánsson, sem var með mestan aksturskostnað á árinu 2020. Hann ók alls fyrir 2.669.081 krónu. Ásmundur var svo í öðru sæti en hann ók fyrir 2.217.867 krónur. Þetta kemur fram í samantekt Kjarnans sem birtist í gær.

Þeir voru einu þingmennirnir sem óku fyrir meira en tvær milljónir króna. Gunnar er þingmaður í Norðvesturkjördæmi en Ásmundur í Suðurkjördæmi.

Guðjón notaði sína eigin bifreið ekkert heldur felst allur kostnaður hans í greiðslum fyrir bílaleigubíla og eldsneyti.

Þessir ellefu þingmenn keyrðu fyrir meira en eina milljón króna á síðasta ári:

  1. Guðjón S. Brjánsson Samfylkingunni 2.669.081 krónur
  2. Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki 2.217.867 krónur
  3. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri græn 1.827.141 krónur
  4. Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki 1.694.043 krónur
  5. Birgir Þórarinsson Miðflokki 1.653.749 krónur
  6. Sigurður Páll Jónsson Miðflokki 1.643.859 krónur
  7. Haraldur Benediktsson Sjálfstæðisflokki 1.580.226 krónur
  8. Lilja Rafney Magnúsdóttir Vinstri grænum 1.390.240 krónur
  9. Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki 1.283.788 krónur
  10. Albertína Friðbjört Elíasdóttir Samfylkingunni 1.124.066 krónur
  11. Líneik Anna Sævarsdóttir Framsóknarflokki 1.069.035 krónur