Þess vegna skaltu gæta vel að því hvar þú leggur frá þér kertið – Sjáðu myndbandið

Það er stundum sagt að af litlum neista verði oft mikið bál og það er ekki að ástæðulausu eins og meðfylgjandi myndband ber með sér.

Það borgar sig að fara varlega þegar kerti eru annars vegar en í meðfylgjandi myndbandi má sjá þegar eldur kom upp í íbúð eldri hjóna eftir að logi frá kerti náði að teygja sig í gluggatjöld íbúðarinnar.

Breski fréttamiðillinn Daily Mail birti umrætt myndband á Facebook-síðu sinni í gær þar sem það hefur vakið mikla athygli. Ekki liggur fyrir hvar myndbandið var tekið en í myndbandinu kemur fram að engin hafi slasast, sem betur fer, en eins og gefur að skilja urðu talsverðar skemmdir á íbúðinni.

Á vef Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins má finna gagnlegar ráðleggingar um eldvarnir á heimilum, til dæmis vegna kerta og skreytinga.

  • Veldu kerti sem þú hefur góða reynslu af (þau brenna mishratt)
  • Festu þau tryggilega á eldtrega og stöðuga undirstöðu (stjaki, borð)
  • Staðsettu þau ekki of nærri hitagjafa, (t.d. ofni, arni, sjónvarpi eða ofan á raftæki)
  • Staðsettu þau ekki nærri eldfimum efnum eða trekki (t.d. fatnaði, gardínum eða glugga)
  • Settu eldvörn á skreytingar
  • Fylgstu með kertunum og slökktu tímanlega á þeim
  • Yfirgefðu aldrei herbergi þar sem logar á kerti
  • Hafðu slökkvibúnað í lagi og við höndina
  • Börn eiga aldrei að vera ein í herbergi þar sem logar á kerti