Þess vegna heitir þetta gjafakvóti

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði á Alþingi á þriðjudaginn að nú vissum við hvers virði eign ríkisins væri í Íslandsbanka vegna þess að markaðurinn væri búinn að verðleggja bankann. Afar ánægjulegt var að heyra formann Sjálfstæðisflokksins lýsa þessari trú sinni á markaðinn og getu hans til að verðmeta hluti.

Ríkið á verðmætar eignir, sem hægt er að selja til að vinda ofan af Covid skuldahalanum. Samkvæmt mati markaðarins er eftirstandandi hlutur ríkisins í Íslandsbanka um það bil 150 milljarða virði. Þá á ríkið næstum allan Landsbankann og miðað við markaðsverð Íslandsbanka er ekki fjarri lagi að sala á 60 prósenta hlut í Landsbankanum geti skilað ríkinu hátt í 200 milljörðum.

En verðmætasta eign íslenska ríkisins er líkast til fiskurinn í sjónum. Svo vill til að markaðurinn hefur einmitt verðlagt fiskinn í sjónum. Það verðmat birtist á leigumarkaði með aflaheimildir. Samkvæmt því eru aflaheimildir við Ísland um 75 milljarða virði – á hverju einasta ári. Núvirði þessa yfir 25 ár, ef miðað er t.d. við ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða, sem er 3,5 prósent á ári, er 1.236 milljarðar.

Þrátt fyrir að markaðurinn, sem Bjarni Benediktsson telur mjög hæfan til að meta virði eignar ríkisins í bönkum, sé búinn að verðleggja fiskinn í sjónum neitar Bjarni og flokkur hans að fara eftir verðmati hans þegar kemur að fiskinum í sjónum. Í stað þess að rukka þá sem fá úthlutað aflaheimildum frá ríkinu um markaðsverð, eða 75 milljarða á ári, eru þeir rukkaðir um 4,7 milljarða á ári. Núvirt til 25 ára gera þetta samtals 77 milljarða. Ríkið færir sem sagt handhöfum aflaheimilda við Ísland 70 milljarða á ári, eða 1.159 milljarða á 25 árum.

Þess vegna er talað um gjafakvóta. Þess vegna eru vandræði með að fjármagna heilbrigðiskerfi.

Vert er að hafa í huga að gjaldtaka fyrir aflaheimildir hefur ekkert með fiskveiðistjórnunarkerfið að gera. Gjaldtakan snýst eingöngu um það hvernig farið er með eigur ríkisins.

- - Ólafur Arnarson