Þess vegna fáum við harð­sperrur

Nú þegar líkams­ræktar­stöðvarnar hafa opnað á nýjan leik er ekki úti­lokað að ein­hverjir lands­menn muni finna fyrir harð­sperrum. Líkams­ræktar­stöðvar hafa verið lokaðar undan­farnar vikur og má segja að harð­sperrur séu ó­hjá­kvæmi­legur fylgi­fiskur þess að byrja hreyfingu eftir langa kyrr­setu.

Á vef Doktor.is er ljósi varpað á harð­perrur, af hverju þær koma og hvað er að gerast í líkamanum þegar við fáum harð­sperrur.

„Harð­sperrur er af­leiðing skemmda sem verða í vöðvum þegar vöðva­á­lag eykst eða breytist. Það sem gerist er vöðva­frumur skemmast og rifna og upp­röðun á sam­drátta­próteina þeirra breytist. Þá kemur fram bólgu­svörun og líkaminn losar boð­efni, en þau erta sárs­auka­taugar í vöðvunum sem mynda verkinn sem margir þekkja,“ segir í svari Láru Kristínar Jóns­dóttur hjúkrunar­fræðings.

Hún segir að harð­sperrur komi yfir­leitt fram nokkrum klukku­stundum eftir æfingu eða átök en geta einnig tekið 1-2 daga. Harð­sperrurnar eru yfir­leitt verstar á öðrum til þriðja degi.

„Á meðan líkaminn er að jafna sig á harð­sperrunum eru vöðvarnir að byggja sig upp og verða sterkari og stærri fyrir vikið.“

Lára segir að lítið sé hægt að gera til að koma al­gjör­lega í veg fyrir harð­sperrur þar sem vöðva­þræðirnir rifna við hreyfinguna en ekki eftir­á. Ýmis­legt má samt gera til að minnka líkur og auð­velda líkamanum að takast á við breytt eða aukið álag. Lára nefnir nokkur dæmi:

- Bæta jafnt og þétt við æfinga­á­lag

- Hita líkamann vel upp fyrir æfingar

- Teygja á vöðvum sem voru notaðir. Það kemur í veg fyrir að þeir stirðni og verði stífir. Teygjur koma þó ekki í veg fyrir harð­sperrur

- Koma blóð­fæði af stað með léttri hreyfingu. Blóð­flæðið hitar upp vöðvana og þá minnka verkirnir ör­lítið.

- Heitt bað og kaldir bakstrar til skiptis.

- Drekka vel af vatni