„Þeir voru mikil góðmenni þegar þeir voru í lagi“

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins er gestur Sigmundar Ernis í Mannamáli í kvöld. Æska Kolbrúnar er mörkuð heimilisofbeldi, alkóhólisma og fátækt sem hún segir frá í mjög svo hreinskilnu spjalli. Kolbrún segir frá þeim áhrifum sem það hafði á hana fram til fullorðinsára og þá ákvörðun um að taka þátt í stjórnmálum eftir áratugastarf sem sálfræðingur fólks sem minna má sín - og ekki síst segir hún frá misheppnuðu brúðkaupi sínu á Stokkseyri og skilnaði vegna samkynhneigðar eiginmannsins.

Kolbrún er sérfræðingur í félags og – perósnuleikasálfræði og hefur koma víða að aðstoð fyrir fólk í erfiðustu aðstæðum lífsins; fátæk börn, fíkniefnasjúklinga, fanga, hælisleitendur og fólk í sjálfsvígshugleiðingum.

„Þetta var allt öðruvísi en ég bjóst við“, segir Kolbrún um að ganga inn í borgarfulltrúastarfið þar sem hún er eini fulltrúi síns flokks en vinnuálagið hafi verið meira en hún bjóst við. „Ég vil líka gera þetta vel og taka þetta alla leið, ég er bara þannig“. Hún segir draum núna rætast um að geta nýtt allt sem hún hafi lært og gert um ævina.

Kolbrún segir líka frá óvenjulegu hlutskipti sínu en Vesturbæjarstelpan Kolbrún óx á ógnarhraða og var orðin 1.70 á hæð aðeins tólf ára gömul - sem var henni erfitt. „Mér leið mjög illa með þetta“, rifjar hún upp.

„Hún var ein að basla með okkur í svona fjörtíu fermetra þakíbúð með okkur fjögur systkinin“, segir Kolbrún frá eftir að móðir hennar skildi við eiginmanninn og föður Kolbrúnar vegna alkóhólisma hans. Tólf ára gömul flytur Kolbrún frá Melunum á Nesveginn og fjórtán ára eignast móður hennar nýjan mann sem, eins og faðir Kolbrúnar drakk mikið.

Báðir hafi þó verið mikil góðmenni þegar allt var í lagi en þegar Bakkus komst í spilið hafði faðir hennar til dæmis orðið mjög ofbeldisfullur. „Ég var bara búin að fá nóg af þessu“, segir Kolbrún um þennan mikla alkóhólisma sem hún sem ung stúlka bjó við. Svo fór að Kolbrún yfirgaf heimilið og eignaðist nýja fjölskyldu hjá tengdaforeldrum sínum, sextán ára gömul.