„Þegar ríkið er farið að borga fyrir að reka fólk hljóta góðu hugmyndirnar að vera búnar“

„Ríkisstjórnin þarf ekki frekari hvatningu. Þegar ríkið er farið að borga fyrirtækjum fyrir að reka fólk hljóta allar góðu hugmyndirnar að vera búnar,“ segir Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. 

Þar gerir Pawel hlutabótaleiðina að umtalsefni og gagnrýnir það hvernig staðið var að henni. Með henni hafi hlutafé illa rekinna fyrirtækja verið varið en á sama tíma hafi stjórnendur vel rekinna fyrirtækja verið settir í erfiða stöðu. 

„Með hlutabóta-leiðinni átti að borga fyrirtækjum fyrir að reka ekki fólk. En skömmu síðar ákvað ríkisstjórnin að borga laun starfsfólks einkafyrirtækja… í uppsagnarfresti. Sem sagt: að borga fyrirtækjum fyrir að reka fólk,“ segir Pawel í grein sinni. 

Hann segir að fyrirtæki sem geti ekki greitt laun í uppsagnarfresti séu í raun gjaldþrota. Í slíkum tilfellum geri Ábyrgðasjóður launa upp vangoldin laun. 

„Þegar ríkið ákveður að greiða laun í uppsagnarfresti án kröfu um gjaldþrot er það því varla að verja atvinnu eða tekjur launafólks. Það er að verja hlutafé.“

Pawel tekur svo dæmi af tveimur fyrirtækjum sem hann kallar annars vegar Vel rekið ehf. og hins vegar Illa rekið ehf. sem eru í samkeppni við hvort annað. 

„Vel rekið ehf. hefur safnað í sjóði til að bregðast við breyttum aðstæðum en Illa rekið ehf. ekki. Nú kemur kreppa og ríkið hleður í aðgerðapakka sem fyrirtækin ráða hvort þau þiggja,“ segir Pawel og bætir við að illa rekna félagið fari á hausinn án ríkisaðstoðar en tóri með því að nýta sér hana. Vel rekna félagið tóri án ríkisaðstoðar en dafni með því að nýta sér hana. 

„Stjórnendur Illa rekins ehf. sækja augljóslega um ríkisaðstoð. Enginn segir neitt við því. En stjórn-endur Vel rekins ehf. eru í vanda. Stjórnendurnir átta sig á því að það kunni að vekja neikvætt umtal ef sótt er um ríkisaðstoð sem fyrirtækið þarf strangt til tekið ekki.“

Niðurstaðan af þessu er að bæði fyrirtækin tóra og því megi segja að ríkið hafi tekið að sér að auka jöfnuð á milli þeirra. Segir Pawel að þótt maður geti haft þá skoðun að ríkið eigi að tryggja jöfnuð milli fólks eigi annað við um fyrirtæki á frjálsum markaði. 

„Þar á samkeppnin ein að ríkja. Almenn lækkun opinberra gjalda er sanngjarnari leið en einhverjar matargjafir til bágstaddra hlutafélaga.“