Þegar felli­bylur verður að stormi eða stinnings­kalda

Flestir hafa heyrt af því, þegar felli­bylir myndast yfir hita­beltis­svæði At­lants­hafs, æða til norð­vesturs og skella svo á Haiti, Kúbu eða Bahama­eyjum og valda þar gífur­legu tjóni á mönnum og mann­virkjum.

Þessir felli­bylir vaða svo oft á­fram í átt að Flórída­skaga, en þegar þeir koma þar að og skella þar á strönd og mann­vikjum, hafa þeir oftast veikst mikið, mesta loftið er þá úr þeim, og eru þeir komnir niður á skað­lítið eða skað­laust stig storms eða stinnings­kalda. Sami felli­bylurinn, með sama nafni.

Á sama hátt er flest í þessum heimi breyti­legt, og fátt stendur í stað. Þetta á við um alls konar að­stæður og skil­yrði, og eru flest verk manna stillt inn á, að fylgja og að­laga sig breyttum að­stæðum. Ef um vanda­mál er að ræða, þurfa lausnir að vera sveigjan­legar og fylgja eðli og breytingum vandans.

Segja má, að þetta eigi við um veður­við­vörunar- og varnar­kerfi okkar Ís­lendinga. Gul við­vörun er hættu­lítil, sú appel­sínu­gula gæti boðað á­föll og menn verða að sýna að­gát, og rauð við­vörun er hrein hættu­við­vörun, þar sem stjórn­völd grípa gjarnan inn í, loka vegum eða leiðum og vara al­menning sterk­lega við; hafa vit fyrir mönnum og setja reglur og ramma um gjörðir þeirra.

Kórónu­veiran hefur nú grasserað hér í hálft ár. Upp­haf­lega var styrkur veirunnar mikill og hættan, sem af henni stafaði, mikil; margir veiktust illa, urðu að vera vikum saman í öndunar­vél og gjör­gæzlu, og til allrar ó­hamingju létust 10. Þetta var al­var­legt á­stand, hátt hættu­stig; felli­bylur eða rauð við­vörun.

Þökk sé mark­vissu starfi stjórn­valda - þrí­eykinu sér­stak­lega - tókst að hemja veiruna, koma á hana böndum, og leyfði það síðan til­slakanir og nýja byrjun nokkuð eðli­legs lífs og starfs. Gott mál.

En ný­lega, vegna aukinna sam­gangna og sam­skipta, skaut veiran sér upp aftur, og nú í nýju og breyttu formi; greini­lega miklu veikara formi; felli­bylurinn var orðið að stormi eða stinnings­kalda; rautt á­stand að appel­sínu­gulu eða gulu.

Upp á síð­kastið, þrátt fyrir um hundrað manns með virkt smit og nær þúsund manns í sótt­kví, var lengi vel enginn á sjúkra­húsi, hvað þá í gjör­gæzlu eða öndunar­vél, svo að ekki sé talað um, að ein­hver hafi látizt.

Nú í bili er reyndar 1 sjúk­lingur (af um 100) á spítala og í gjör­gæzlu. 31. marz voru 11 sjúk­lingar á gjör­gæzlu, þann 7. apríl voru þeir 13.

Af þeim 100 manns, sem eru sýktir nú, þarf enginn á sjúkra­hús og flestir virðast vart finna fyrir sjúk­dóms­ein­kennum, eða alls ekki.

Auð­vitað hefur veiran, eðli hennar og styrkur gjör­breyzt. Það þarf enga vísinda­menn til að sjá það. Al­menn skyn­semi dugar.

Myndi ein­hver heil­vita maður undir­búa sig eins og taka eins á vanda stinnings­kalda og felli­byls. Auð­vitað ekki. Þetta eru tvö gjör­ó­lík við­fangs­efni, þó að þau kunna að bera sama nafn.

Kórónu­veiran hefur greini­lega veikzt með af­gerandi hætti - farið út bráð­al­var­legri flensu í milda kvef­pest, alla vega hér -, á síðustu vikum, og þarf því að að­laga við­brögð, úr­ræði og reglur því. Annað væri ó­skyn­sam­legt, yfir­keyrt og skað­legt.

Stýring þessara mála hér innan­lands varðar ekki að­eins ferða­þjónustuna - sem reif þjóðina út úr hruninu – heldur líka flesta aðra at­vinnu­vegi, sam­skipti manna og sam­veru, fé­lags­starf­semi og í­þróttir, skemmtana­hald, skóla­hald og nánast allt annað streymi og hræringar þjóð­fé­lagsins.

Ekki skilur undir­ritaður skimunar­páfann okkar vel - reyndar ekki í fyrsta skipti, og örugg­lega ekki í það síðasta -, en hann talaði ný­lega um „ógn­vekjandi þróun“ og svo fyrir því, með mikilli fjöl­miðla­við­veru og dúndrandi lúðra­blæstri, að landa­mærunum skyldi lokað.

Hugsaði skimunar­páfinn - sem reyndar hefur hrokkið nokkuð úr og í það hlut­verk - um það, hversu Ís­land er feiki­lega háð al­þjóð­legum sam­skiptum og við­skiptum, eða það, að það er tækni­lega ó­gerningur, að stöðva eða úti­loka veiru, þar sem að­eins einn maður - og það væri aldrei hægt að halda þeim öllum frá - gæti komið með smit, sem svo breiddist út?

Þetta tal og þessi mál­flutningur er fyrir undir­rituðum ekki gott tal, fremur snakk­gleði en mál­efna­leg og yfir­veguð mál­færsla, en veiran hefur greini­lega veikst með svipuðum hætti í Norður- og Mið Evrópu, og hér, miðað við tölur um sjúkra­hús­vist og dauðs­föll þar, sem auð­vitað vega miklu þyngra, en tölur um mein­lítil smit.

Verður, að viti undir­ritaðs, að skilja með af­gerandi hætti á milli landa og svæða, þar sem veira er komin á milt og hættu­lítið stig, og þeirra, þar sem hún grasserar enn með skað­væn­legum hætti.

Allt sem ég hef heyrt til þrí­eykisins hefur virzt yfir­vegað og mál­efna­legt. Vil ég með þessum pistli skora á það á­gæta fólk, og þá um leið á heil­brigðis­ráð­herra og for­sætis­ráð­herra, að í­huga, hvort að ekki mega fara úr rauðri við­vörun, að­gerðum og reglum í appel­sínu­gula eða gula við­vörun í CO­VID-19 málum hið fyrsta.

Auð­vitað þarf á­fram, að gæta aldraðra og veikra vel, án þess þó að gera þeim lífið of leitt. Annað mætti í mínum huga nálgast fyrra far, þó með nýrri hrein­lætis- og heilsu­verndar­menningu.

Auð­vitað gæti veiran sótt í sig veðrið að nýju, en, ef til þess kæmi, yrði að taka á því í sam­ræmi við þá nýju stöðu. Á gamalli og góðri Ís­lenzku heitir slíkt: Að haga seglum eftir vindi.