Þarf að greiða 420 þúsund í sekt eftir ofsa­akstur á Reykja­nes­braut

29. maí 2020
10:07
Fréttir & pistlar

Lög­reglan á Suður­nesjum stöðvaði för er­lends öku­manns á dögunum en bif­reið hans mældist á 203 kíló­metra hraða. Há­marks­hraði á þessum vegar­kafla er 90 kíló­metrar á klukku­stund.

Í skeyti sem lög­reglan á Suður­nesjum sendi fjöl­miðlum kemur fram að maðurinn hafi einnig verið grunaður um ölvunar­akstur. Vart þarf að taka fram að hann var sviptur öku­réttindum til bráða­birgða og var honum gert að greiða 420 þúsund krónur í sekt fyrir brot sín.

Þessu til við­bótar voru tíu staðnir að hrað­akstri í um­dæmi lög­reglunnar í vikunni. Þá voru höfð af­skipti af öku­manni sem ók sviptur öku­réttindum með barn í bílnum.

Nokkur um­ferðar­laga­brot til við­bótar voru skráð í vikunni. Tveir óku á negldum dekkjum, einn var grunaður um fíkni­efna­akstur og skráningar­númer voru fjar­lægð af tveimur bif­reiðum sem voru ó­skoðaðar eða ó­tryggðar.