Þakkar Reykjanesapóteki fyrir að bjarga sér í neyð: „Ég er gráti næst“

Rakel Ösp Sigurðardóttir birti í dag færslu á facebook þar sem hún þakkar Reykjanesapóteki á Hólagötu fyrir að bjarga sér með frábærri þjónustu þegar hún lá veik heima.

„Ég vildi bara segja ykkur hversu þakklát ég er að ég er gráti næst yfir þessarri æðislegu og hlýju þjónustu“, sagði hún en sökum veikinda komst hún ekki sjálf út úr húsi.

„Ég er búin að vera fárveik heima í viku með flensuna sem hefur alls ekki farið vel í mig,“ sagði í færslu hennar en eflaust kannast margir við það ömurlega hlutskipti að liggja heima veikur og komast ekki frá.

„Ég hringdi og pantaði hóstasaft og hitastillandi, símgreiddi og 5-10 mín seinna kemur konan sem afgreiddi mig símleiðis með pöntunina heim til mín,“ segir í færslu Rakelar.

Núþegar hafa hátt í 800 manns sett læk við færsluna og hafa fjöldamargir sett athugasemd við færsluna þar sem þeir lýsa samskonar reynslu af viðskiptum við apótekið.

Önnur fyrirtæki mættu eflaust taka þessa þjónustu sér til fyrirmyndar. Því fær Reykjanesapótek hrós dagsins.