„Það fór ekki vel fyrir mörgum sem dúxuðu á svipuðum tíma og ég“

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og bakþankahöfundur Fréttablaðsins, veltir fyrir sér hvort það sé tímaskekkja að mæla verðleika út frá einkunnum eins og tilhneigingin hefur verið lengi.

Lára skrifar um þetta í bakþönkum Fréttablaðsins í dag en eins og flestir vita stendur prófatíð nú yfir. Bendir Lára á að brátt megi búast við fréttum af hæstu einkunnum nemenda. Af því tilefni rifjar hún upp samtal við eiginmann sinn.

„Ég held að það hafi haft já­kvæð á­hrif að flytja ungur til Banda­ríkjanna og hverfa inn í fjöldann,“ sagði maðurinn minn þegar ég spurði hann hvernig það að dúxa í mennta­skóla hefði mótað hann. „Það fór ekki vel fyrir mörgum sem dúxuðu á svipuðum tíma og ég.“

Lára bendir á að það að vera góður á bókina þyki fínt, en að búa yfir mannkostum eins og umhyggju fyrir náunganum fái engin verðlaun.

„Er þetta sér­ís­lenskt? Síðustu ár sóttu drengirnir mínir skóla sem eru á lista yfir þá bestu í Banda­ríkjunum. Ég sat nokkrar út­skriftir, en aldrei var minnst á ein­kunnir. Allir voru jafnir að leiks­lokum. Aftur á móti voru árs­fjórðungs­lega veittar viður­kenningar fyrir að bæta sig í sam­skiptum og mann­kostum. Styrkleikar nem­enda voru dregnir fram í sviðs­ljósið þar sem ár­gangurinn klappaði, hvatti og sam­gladdist. Allir stigu upp á svið.#

Lára segir að hinn virti Stanford-háskóli hafi sama sið með einkunnir.

„Fyrir nokkrum árum fór ég þangað á kynningar­fund um MBA-nám. Um­sjónar­kennarinn sagði að eftir að þeir hættu að birta ein­kunnir hafi á­nægja með námið aukist á­samt því að streita minnkaði. Nem­endur væru því hvattir til að halda ein­kunnum fyrir sig.“

Lára spyr hvort það sé tímaskekkja að mæla verðleika út frá einkunnum.

„Það er engum hollt að bera sig stöðugt saman við aðra, því ein­kunnir eru engin trygging fyrir hamingju og vel­gengni í lífinu. Hins vegar er gæfu­ríkt að bæta sjálfan sig. Sagt er að allt það sem þú veitir at­hygli vaxi og dafni. Í stað þess að kynda undir streitu með saman­burði við aðra væri þá ekki nær að hvetja ung­menni til að setja sér eigin mark­mið og keppa að þeim? Keppa við sjálfan sig og verða með því betri manneskja. Og verða dúx í eigin lífi.“