Hringbraut skrifar

Það er hamfarahlýnun! Hækkum skatta!

28. nóvember 2019
21:42
Fréttir & pistlar

Fyrir nokkrum mánuðum breyttist umræðan um loftslagsmálin. Fram að því hafði verið talað um gróðurhúsaáhrif og hlýnun andrúmsloftsins, hlýnun loftslags, loftslagsbreytingar. Leiðindaskjóður sem vildu ekki syngja í kórnum rifjuðu upp að meira en áratugur er liðinn síðan Lækjargatan í Reykjavík átti að vera orðin siglingaleið vegna hækkunar sjávarborðs samkvæmt \"áreiðanlegum\" spádómi æðsta páfa loftslagsvísindanna: Al Gore.
Svo allt í einu, fyrir nokkrum mánuðum, var eins og ýtt á takka: Allir heimsendaspámennirnir með Guðbrand umhverfis og stjörnu-Sævar í broddi fylkingar fóru að tala um hamfarahlýnun.
Hvað breyttist? Ekki hitastigið, enginn verður þess var! Hvorki hér né annars staðar.
Og nú á að bjarga málunum, koma í veg fyrir endalok mannkyns vegna hamfarahlýnunar!
Stoppa losun!
Og einhverjar fleiri og fleiri aðgerðir.
Enginn er reyndar svo rausnarlegur að útskýra fyrir okkur hvernig eigi að ná þessum árangri, að snúa hamfarahlýnun til kyrrstöðu svo ekki haldi áfram að hlýna. T.d. hvernig það að stoppa \"losun\" geti áorkað því!
Eða hvað? Jú! Bíðum við! Allskonar hugmyndir koma fram, sérstaklega frá stjórnmálamönnum, einkum á vinstri vængnum (sem nú kalla sig líka gjarnan \"græna\"). Allar eiga þessar tillögur eitt sameiginlegt: Þær byggjast á að hækka skatta!
Minna fer fyrir því að sýna okkur fram á hvernig hærri skattar bjargi jörðinni. 
Kannski koma þær útskýringar seinna, þegar búið er að hækka skattana á alla - alla leið upp í rjáfur.
Við getum beðið spennt!
Nýja slagorðið er: Nú er hamfarahlýnun! Hækkum skattana!