„Það á enginn neitt kjördæmi“ - Fyrrum formaður Viðreisnar vill á þing aftur

Í gær tilkynnti einn aðal stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi formaður og ráðherra flokksins, Benedikt Jóhannesson, að hann myndi sækjast eftir því að leiða lista flokksins í einhverju þriggja kjördæmanna á Suðvesturhorninu. Þaðan koma allir fjórir þingmenn flokksins. Þetta eru kjördæmin þrjú, Reykjavík suður og norður og Suðvesturkjördæmi, þar sem formaður flokksins er á fleti sem oddviti.

Um hvort hann telji möguleika á því að sækjast eftir sæti formannsins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í Suðvestur kjördæmi, segir Benedikt í viðtali í þættinum 21 í kvöld: „ Það er enginn á móti öðrum, það á enginn einhver sæti við erum öll samherjar og við erum bara að reyna að still upp sterkum listum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað einhver annar ætlar að gera á næsta ári, það eru tólf mánuðir í kosningar og það geta breyst aðstæður hjá mönnum“, segir Benedikt og vísar til þess dæmis að fljótt bar að brotthvarf Þorsteins Víglundssonar sem varaformanns Viðreisnar og þingmanns flokksins.

Svo þú útilokar ekki neitt að fara í kjördæmi formannsins?

„Það á enginn neitt kjördæmi, það er bara þannig. Ég á ekki eitthvað þingsæti, það á enginn neitt þingsæti eða neitt kjördæmi“, svarar Benedikt og það séu kjósendur sem ráði og það séu flokksmenn sem stilli upp.

Viðreisnar heldur Landsþing í næstu viku þar sem m.a. verður kosin ný forysta en ekki hefur borist neitt framboð til formanns svo mestar líkur eru á að Þorgerður Katrín verði áfram formaður en Daði Már Kristófersson prófessor í hagfræði hefur gefið út að hann sækist eftir varaformanns embættinu. Þar sat áður Þorsteinn Víglundsson sem hætti sem varaformaður og þingmaður, nýlega á kjörtímabilinu. Benedikt vill sitja áfram í stjórn flokksins en ætlar sé ekki í forystukjör.

Viðreisn hefur hingað til stillt upp sínum framboðslistum og ekki haldið prófkjör, í það minnsta í þeim kosningum síðan flokkurinn varð til, í þingkosningum 2016 og 2017.

Alþingiskosningar eru eftir rétt rúmt ár eða 25.september á næsta ári.