Telur þetta lið í því að koma Degi að stjórnartaumunum og Katrínu frá völdum

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, er allt annað en sáttur með stjórnmálafræðiprófessorinn Ólaf Þ. Harðarson. Það kemur fram í færslu á bloggsíðu Björns

Hann telur að frétt sem birtist á RÚV í gær, þar sem Ólafur var spurður um sérfræðiálit sitt, sé liður í því að koma Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra frá völdum, og koma Degi B. Eggertssyni að stjórnartaumunum.

Í umræddri frétt á RÚV sagði Ólafur það möguleika að Vinstri græn myndu auka fylgi sitt með því að sprengja ríkisstjórnina. Björn kallar það draumsýn fréttamanns RÚV.

„Öll þessi „frétt“ með prófessornum fyrrverandi er ekkert annað en spuni til að halda lífi í hannaðri atburðarás sem er reist á þrá eftir að sprengja ríkisstjórnina og koma höggi á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Ekki er ólíklegt að þetta sé jafnframt liður í að búa í haginn fyrir valdatöku Dags B. Eggertssonar í Samfylkingunni. Aðferðir af þessu tagi einkenna feril hans í stjórnmálum. Beitt er útilokunum sem eru oftar en ekki reistar á aðför að einstaklingum enda eru málefni aukaatriði í valdabröltinu.“

Ólafur hefur nú birt langa færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann færir rök fyrir máli sínu, en hún hefst á þessum orðum:

„Björn Bjarnason ber það á mig að ég taki þátt í spuna gegn VG – og hafi oft gert svipaða hluti áður. Hann hefur reyndar iðulega skammað mig fyrir hlutdrægni – rétt eins og ritstjóri Morgunblaðsins. Það hafa fáir aðrir gert í mín eyru, nema kannski minn góði kollega Hannes Hólmsteinn,“

Ólafur segist ekki gera neina athugasemd við að menn séu ósammála greiningu sinni, og segist meira að segja fagna því ef henni er andmælt með málefnalegum hætti, enda sé það hluti af vísindum.

„Mér finnst hins vegar lakara þegar mér eru gerð upp óheilindi og annarlegar hvatir - án nokkurs rökstuðnings. Fylgismenn Trumps í Bandaríkjunum gera reyndar lítið úr vísindum og staðreyndum – og hella svívirðingum yfir vísindamenn sem komast að niðurstöðum sem passa ekki við trúarkreddur þeirra. Sem betur fer hafa frekar fáir Íslendingar verið á þeim buxunum – a.m.k. hingað til.“