Telja sig hafa handsamað síbrotamanninn á Siglufirði

Nokkuð hefur verið fjallað um innbrotahrinu á Siglufirði undanfarna daga og hafa málin verið til rannsóknar hjá lögreglunni á Tröllaskaga.

Hafa íbúar meðal annars tilkynnt þjófnað á heimilum, þjófnað í grunnskóla og skemmdir á bifreiðum.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá því að unglingur hafi nú verið handsamaður á fimmtudaginn sakaður um brotin.

Á fimmtudag komu fram vísbendingar sem beindu sjónum lögreglu að manni á Siglufirði. Var hann yfirheyrður á föstudaginn en neitaði sök og færðu þessar aðgerðir lögregluna ekki nær lausn málsins.

Í gærkvöldi barst lögreglu síðan ábending um ungan mann á Siglufirði sem svaraði til lýsingar á meintum geranda í þessum málum. Þegar lögregla hugðist hafa tal af viðkomandi hljóp hann undan en var handsamaður skömmu seinna.

Í framhaldinu var rætt við foreldra hans og einnig fundust sönnunargögn sem tengja hann við málin. Fulltrúi frá barnaverndaryfirvöldum var kallaður til og síðan tekin skýrsla af piltinum, þar sem hann gékkst við að hafa verið að verki í öllum tilvikum.

Hann hafi verið einn að verki og koma lýsingar hans heim og saman við þær tilkynningar sem lögreglu höfðu borist. Ungi maðurinn var látinn laus eftir skýrslutöku hjá lögreglunni.

Að sögn lögreglunnar á enn eftir að hnýta upp nokkra lausa enda í rannsókninni og klára skýrslugerð. Að því loknu verður málið sent ákæruvaldi til meðferðar en pilturinn hefur náð sakhæfisaldri.

Lögreglumenn á Tröllaskaga hafa undanfarna daga lagt nótt við dag í rannsókn á nokkrum málum á Siglufirði. Eins og fram...

Posted by Lögreglan á Norðurlandi eystra on Sunday, October 11, 2020