Tekjutap Isavia á þessu ári 15 miljarðar

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia segir að tekjutap Isavia á þessu ári vegna minnkandi umsvifa verði 15 milljarðar króna, en félagið sé hins vegar vel í stakk búið til að takast á við erfiðleikana – og þeir muni ekki tefja mikla uppbyggingu Isavia á Keflavíkurflugvelli á næsta ári.

Þetta kemur fram í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í kvöld en þar er Sveinbjörn gestur Sigmundar Ernis og segir frá því hvernig félagið hefur mætt algeru hruni í flugumferð á síðustu mánuðum, en allt útlit er fyrir að það verði ekki svipur hjá sjón mest allt þetta ár. Alltént gera áætlanir Isavia við því að flugið jafni sig ekki fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári.

Hann segir á áætlanir um nýframkvæmdir næsta árs muni standa þrátt fyrir efnahagsáfallið í ár, en fjögurra milljarða innspýting ríkissjóðs í félagið hjálpi þar miklu, svo og lánsfé frá meginlandi Evrópu sem félagið hefur aflað sér. Fyrir dyrum standi 30 milljarða króna endurbætur og nýframkvæmdir á tengibyggingu Leifsstöðvar vegna nýrra krafna um vegabréfaskoðun sem mun taka ívið lengri tíma en áður – og því þarf að fjölga skoðunarstöðvum til að koma til móts við þær kröfur. Það segi því sitthvað um sterka efnahagsstöðu Isavia að þrátt fyrir 15 milljarða tekjutap á þessu ári verði ráðist í nýframkvæmdir á næsta ári samkvæmt áætlun.